Átakavettvangur kosninganna á Ítalíu
Sjálfsákvörðunarréttur þjóða og hinn yfirþjóðlegi fjálmálamarkaður
Ég hef reynt að fylgjast með stjórnmálum á Ítalíu frá því ég kom þangað fyrst fyrir 52 árum síðan.
Oft hefur verið erfitt fyrir utanaðkomandi gesti að skilja þann flókna hagsmunavef sem hefur mótað þessa ævintýralegu sögu sem oft hefur nálgast átakavettvang glæpareifarans með hinu flókna hugmyndafræðilega samspili kaþólsku og kommúnisma, miðstýringar og stjórnleysis sem hefur einkennt þessa sögu. Og enn í dag ganga Ítalir að kjörborðinu í sögulegum kosningum til þingsins, og satt að segja virðist átakavettvangurinn flóknari nú en nokkru sinni og niðurstöðurnar ófyrirsjáanlegri.
Málið er flóknara en svo að það komist fyrir á einni blog-síðu, og forsagan flóknari en hægt er að skýra í stuttu máli.
Margir flokkar og „flokkabandalög“ eru í framboði og kosningalögin eru nánast óskiljanleg fyrir allan almenning, að hluta til eiga úrslitn að verðlauna stærstu flokkana, að hluta til eiga allir flokkar að búa við sömu hlutfallaregluna.
Þessi óskapnaður var málamiðlun Demókrataflokksins og FI-flokksins (flokks Silvio Berlusconi) og átti að tryggja tveggja flokka kerfi. Það þveröfuga gerðist og síðasta áratuginn hafa amk. þrír flokkar verið á jöfnu róli, og nú enn fleiri, en það sem ruglar dæmið er einkum 5 stjörnu hreyfingin sem kennd er við grínistann Beppe Grillo, sem síustu skoðanakannanir segja stærsta flokkinn með um 30% fylgi. Þessi flokkur eða hreyfing hefur ekki staðfesta stefnu í öðru en að „vera á móti kerfinu“ og hefur því ekki verið tekinn alvarlega af hinum flokkunum.
Hinir pólarnir eru Demókrataflokkurinn (PD) sem er sögulegir arftaki gamla Kommúnistaflokksins og telst meðal sósíaldemókrata á evrópskan mælikvarða (og skoðanakannanir hafa sagt hafa um eða undir 20% atkvæða) og Kosningabandalag Mið-hægri flokkanna (hagsmunabandalag vegna kosningalaganna) sem skoðanakannanir hafa sagt sigurstranglegast með allt að 40%. Þetta er bandalag FI, Lega og Fratelli d’Italia, þar sem FI og Lega eru taldir berjast um yfirráð með rúm 15% hvor flokkur og Fratelli-flokkurinn 5-10%. Skoðanakannanir eru 2 vikna gamlar og því ónákvæmar.
Fyrir utanaðkomandi er þetta síðasttalda bandalag mesta ráðgátan,en FI flokkurinn (og mið-hægri bandalagið) eru gjarnan kennd við Silvio Berlusconi, margdæmdann fjársvikamann sem hefur verið sviptur kjörgengi og er því ekki í framboði. Flokkur hans er því höfuðlaus her, og tilnefndi sinn kandidat í forsætisráðuneytið örfáum dögum fyrir kosningar, lítt þekktan þingmann Evrópuþingsins sem ekki tekur þátt í kosningabaráttunni.
Það er ekki síst bandalagsflokkur Berlusconi, Lega-flokkurinn, sem hefur sett svip á kosningabaráttuna og valdið umróti og ótta, ekki síst vegna stefnu sinnar í Evrópumálum og gagnvart innflytjendum. Þessi flokkur á sér sögu sem flokkur aðskilnaðarsinna N-Ítalíu frá Róm, en átti engu að síður lengi samstarf við flokk SB á stjórnartíma hans. Lega flokkurinn hefur nú kúvent, tekið „norður“-hugtakið úr nafni sínu og hafið kosningabaráttu af miklum krafti á landsvísu. Þessi umskipti hafa staðið yfir síðustu 2 árin, en urðu afgerandi þegar flokksleiðtoginn Salvini leiddi tvo virta hagfræðinga til áhrifa innan flokksins sem hafa frá áramótum hleypt nýju blóði í hina pólitísku umræðu, þó málflutningur þeirra hafi átt erfitt uppdráttar í meginfjölmiðlum. Margir spá því nú að Lega-flokkurinn verði stærri en FI innan „Mið-hægri bandalagsins“ og fái því rétt til að tilnefna forsætisráðherraefni bandalagsins. Það vald er þó formlega í höndum Mattarella forseta lýðveldisins.
Hver eru þá deiluefnin sem kosningarnar snúast um?
Það sem fyrst blasir við hjá hinum almenna kjósanda er atvinnuleysið sem hefur verið 12% og 25-30% hjá ungu fólki. Þetta hefur verið viðvarandi ástand undanfarinn áratug og tengist efnahagslegri stöðnun sem lýsir sér í samdrætti í þjóðarframleiðslu og samdrætti í félagslegri þjónustu. Upphaflega var þessi slæma útkoma gjarnan tengd stjórnarferli Silvio Berlusconi, en þar sem PD hefur ekki fundið lausnir á þessum vanda á valdatíma sínum hefur almenningur glatað trausti sínu á flokkakerfinu, hinni hefðbundnu pólitík, og þannig skýrist hið mikla fylgi 5 stjörnu hreyfingarinnar. Fáir trúa því þó að sú hreyfing hafi lausnir á þessum vanda, og því leita menn skýringa annars staðar.
Þessi umræða hefur tengst innflytjendavandanum og tregðu Evrópusambandsins að deila þeim vanda með Ítölum, sem hafa borið þyngstu byrðina eftir innrás NATO-ríkja í Líbýu og hernað BNA og bandalagsríkjanna í Mið-Austurlöndum með tilheyrandi flóttamannastraumi.
Það eru þessi tengsl ESB við hinn pólitíska vanda á Ítalíu sem nú veldur titringi í valdamiðstöðum sambandsins í Brussel, Berlín og Frankfurt. Það er ekki síst málflutningur Lega-flokksins sem veldur þessum skjálfta, en einnig tortryggni í garð sambandsins meðal kjósenda 5 stjörnu hreyfingarinnar og flokks Berlusconi. En Berlusconi lýsti því nýverið yfir að hann myndi senda 600.000 „ólöglega“ innflytjendur til heimahúsanna ef hann kæmist til valda.
Hin almenna pólitíska umræða í Evrópu hefur búið til orðið „popúlisma“ um þau stjórnmálaöfl sem hafa haft uppi efasemdir um myntsamstarfið og og þá skerðingu á lýðræði sem Evrópusamstarfið hefur haft í för með sér. Þetta neikvæða slagorð er til þess fallið að breiða yfir þann raunverulega vanda sem blasir við öllum almenningi og gefur nú til kynna að öll stærstu stjórnmálaöflin á Ítalíu að Demókrataflokknum undanskildum séu „popúlísk“ og sem slík óalandi og óferjandi. Demókrataflokkurinn gengur til móts við sögulegan ósigur í kosnngunum í dag undir kjörorðum um „stöðugleika“ og „ábyrgð“ er felast í óbreyttum grundvallarreglum í samstarfinu innan ESB. Öll hin öflin beina spjótum sínum gegn ESB.
Þar eru áherslur þó mismunandi. Fimm stjörnu-hreyfingin er hætt að berjast fyrir úrsögn úr myntsamstarfinu, án þess að benda á valkosti. Silvio Berlusconi segist líka styðja myntsamstarfið en hefur óskýra stefnu gagnvart sambandinu að öðru leyti. Hagfræðingarnir sem hafa gengið til liðs við Lega-flokkinn hafa hins vegar beitt sinni fræðilegu þekkingu til þess að greina þann vanda sem myntsamstarfið hefur skapað, og reynt að móta mótvægisstefnu gegn þeim.
Hagfræðingurinn Alberto Bagnai, sem er helsti efnahagsráðgjafi Lega flokksins, á sér sögu sem fræðimaður og gagnrýnandi myntsamstarfsins allt frá því Maastricht samkomulagið var gert 1992, en það var undanfari Evrunnar sem tekin var í notkun 2002. Bagnai hefur með sannfærandi fræðilegum málflutningi rakið meginorsök þeirrar stöðnunar sem verið hefur viðvarandi á Ítalíu undanfarinn áratug til þess ójöfnuðar sem óhjákvæmilega verður fylgifiskur þess að ólík hagkerfi eiga að starfa í innbyrðis samkeppni undir sama gjaldmiðli án þess að hann sé tengdur sameiginlegri stjórnsýslu hvað varðar vexti, viðskiptajöfnuð skuldaábyrgð og aðra meginþætti stjórnmálanna. Það merkilega er að þessi hagfræðingur skrifaði sínar fræðigreinar upphaflega í málgögn sem voru talin yst á vinstri-vængnum (il manifesto og síðar Il Fatto Quitidiano) en er nú helsti málsvari Lega-flokksins sem telst „til hægri“ við flokk Berlusconi og hefur uppi slagorð um „þjóðleg gildi“ og „Ítalía fyrst“ í anda Trump forseta BNA. Enginn fræðimaður hefur svarað greiningu Bagnai með fræðilegum rökum, enda eru hagfræðiskýringar hans byggðar á alþekktum rökum sem nóbelsverðlaunahafinn Stieglitz hefur verið hvað ötulastur að setja fram um strúktúrgalla evrópska myntsamstarfsins. Hér stöndum við þannig frammi fyrir þeirri þversögn að hið málefnalega frumkvæði í kosningabaráttunni hefur komið fram frá gömlum róttæklingi sem nú er í framboði fyrir flokk sem er ekki bara kenndur við popúlisma, heldur jafnvel rasisma og kynþáttastefnu.
Þetta skýrir að einhverju leyti glundroðann í ítölsku kosningabaráttunni, en segir þó alls ekki alla söguna. Það er tiltölulega auðvelt að sýna fram á að Evran hefur gert Þýskaland með sinn jákvæða viðskiptajöfnuð að fjárhagslegu yfirvaldi yfir þeim „jaðarríkjum“ innan sambandsins sem búa við neikvæðan viðskiptajöfnuð en sama gjaldmiðil og að þau eru dæmd til viðvarandi efnahagslegrar stöðnunar með „niðurskurðarstefnu“ ESB. Þó búið sé að greina efnahagslegu forsendurnar, þá skortir á hina pólitísku, tilfinningalegu og sálfræðilegu greiningu sem tengist þessum leikreglum óbeint, en einnig heimspólitíkinni í víðara samhengi.
ESB var sambandið sem átti að efla jaðarríkin til jafnræðis við höfuðbólin í Þýslkalandi og Frakklandi. Nú hefur hið þveröfuga sýnt sig að vera niðurstaðan eftir 10 ára stöðnunartímabil. Þá kemur í ljós að þessi vandi virðist ekki komast á dagskrá stjórnmálanna, þar sem hann er ofar því sem kallað hefur verið „sjálfsákvörðunarréttur þjóða“, og er orðið úrelt slagorð í alþjóðastjórnmálum eins og Grikkir hafa t.d. sannreynt. Þjóðríkið sem slíkt hefur fúnar og feysknar undirstöður á tímum hins fjölþjóðlega fjármálavalds, og almenningur skynjar vel að stjórnmálaflokkarnir hafa lítið eða ekkert að segja um vandamál dagsins: réttinn til vinnu, menntunar, heilsugæslu, lífeyris o.s.frv.
Þetta skapar ekki bara efnahagslega neyð eða skort, þetta framkallar tilfinningalegt og sálrænt öryggisleysi sem birtist í vantrausti á stjórnmálunum og uppvaxandi „popúlisma“. Hverjar eru sálrænar og tilfinningalegar afleiðingar þess að upplifa upplausn slíkrar undirstöðu tilverunnar sem hugtakið „sjálfsákvörðnarréttur þjóða“ hefur verið allt frá tilkomu upplýsingar í Evrópu á 17. og 18. öldinni?
Þetta eru spurningar sem ekki komast upp á yfirborðið í kosningabaráttunni á Ítalíu, en kalla engu að síður á umhugsun ef við viljum í reynd reyna að skilja hvernig stjórnmálaumhverfið getur breyst með jafn afgerandi hætti á svo stuttum tíma. Það er ekki hægt að horfa framhjá þeirri staðreynd að eins og er þá hafa hugtökin hægri og vinstri ekki skýra merkingu í ítölsku kosningabaráttunni. Þetta ástand á sér hliðstæður í Austurríki, Frakklandi, Póllandi, Ungverjalandi, Króatíu, Grikklandi og þó víðar væri leitað, svo ekki sé minnst á Bretland.
Einhver kynni að halda að ég væri með þessum pistli að lýsa yfir stuðningi mínum við „hægri-flokkinn“ Lega Salvini, sem hefur verið orðaður við rasisma og flest illt. Það er ekki svo. Mér sýnist margt undarlegt við einstakar hugmyndir þessa flokks, en umfram allt þá er eitt sem skortir í málflutning allra flokkanna sem nú gefa kost á sér til þingsins á Ítalíu: spurningin um framtíðarmarkmið ESB og hlutverk þess í heiminum. ESB hafði í upphafi stórbrotin markmið um að skapa frið í álfunni. Nú er Sambandið orðið uppspretta nýrrar þjóðernisstefnu, sem getur allt eins orðið stórhættuleg ef hún miðar að afturhvarfi til hins gamla þjóðríkis. Mikilvægasta vandamálið í Evrópskum stórnmálum á okkar tímum er að marka ESB framtíðarstefnu og framtíðarsýn sem íbúar Evrópu geta fundið sig í sem fullgildir þegnar. Afturhvarf til hins gamla þjóðríkis mun fela í sér upplausn og átök. Því miður var mikilvægasta pólitíska vandamálið í Evrópu ekki á dagskrá í ítölsku þingkosningunum 2018.