AUGAÐ OG ANDINN I. – Maurice Merleau-Ponty

Maurice Merleau-Ponty (1908 - 1961) var einn af frumkvöðlum svokallaðrar fyrirbærafræði í evrópskri heimspekisögu á 20. öldinni. Hann var þannig kyndilberi hugmynda Edmunds Husserls og Martins Heideggers og um leið náinn samstarfsmaður Jean Paul Sartre á tímabili eftir seinni heimsstyrjöldina. Hann leitaðist með heimspeki sinni við að yfirstíga tvíhyggju sálar og líkama, einkum með víðtækum rannsóknum á sambandi skynjunar og hugsunar, hlutveru og hugveru. Ritgerðin "Augað og andinn" var síðasta verk hans og er löngu orðin sígilt verk um málaralistina og virkni hennar. Ritgerðina skrifaði Ponty á 2-3 mánuðum í sumarleyfi frá störfum sínum í París, staddur í sveitasælu Provence-héraðs, ekki langt frá Aix og því umhverfi sem við getum fundið ilminn af í verkum málarans Cézanne. Ritgerðin opnar ekki bara fyrir okkur marga leyndardóma málaralistarinnar, hún er líka eins og vegvísir að og samantekt á lífsverki Ponty og þjónar því vel sem inngangur að heimspekihugsun fyrirbærafræðinnar og skilningi hennar á leyndardómum skynjunarinnar og mannslíkamans. Ég hef lengi stuðst við þessa ritgerð í kennslu minni og byrjaði að þýða úr henni kaflabrot fyrir löngu. Endanlega lauk ég við þessa þýðingu staddur í París fyrir tveim árum siðan. Hún er ekki fullkomin frekar enn aðrar þýðingar mínar hér á þessari vefsíðu, en það hefur verið mitt mottó að kenna aldrei neitt sem ég hefði ekki fyrst hugsað á íslensku. 
Ritgerðin er í fimm köflum, og eru kaflarnir birtir hér á vefsíðunni í fimm sérstökum færslum til hægðarauka. 
Einkennismynd allra færslanna er fengin úr "Emblematum libellus", táknmyndabók Andrea Alciatus frá árinu 1531.

Maurice Merleau-Ponty:

L’Œil et l’Espirit – Augað og andinn  

FYRSTI KAFLI

 

Íslensk Þýðing unnin eftir ítalskri þýðingu Önnu Sordini, (útg. SE SRL Milano 1989), með hliðsjón af frumtexta (Gallimard 1964) og enskri þýðingu Michael B. Smith (útg. Illinois 1993).

 

 

Það sem ég reyni að endursegja ykkur er ennþá dularfyllra,

 það hvílir í sjálfum rótum verunnar,

 í ósnertanlegri uppsprettulind allrar skynjunar.

Gasquet, Cézanne.

 I.

 Vísindin sýsla með hlutina en neita að taka sér búsetu í þeim. Þau smíða innri líkön þeirra, og þegar þau meðhöndla einingar sínar eða  breytur gerist það ekki nema endrum og eins að breytingarnar sem stafa af þessum vísindalegu skilgreiningum mæli sig við hinn raunverulega heim. Vísindin eru – og hafa ávalt verið – sú aðdáunarverða virka hugsun sem er í senn snjöll og áreynslulaus, þessi afstaða, að meðhöndla sérhverja veru eins og „almennan hlut“, það er að segja eins og hann snerti okkur ekki skapaðan hlut en væri engu að síður eins og skapaður sem sjálfgefið viðfang okkar.

En hin klassísku vísindi varðveittu með sér skilninginn á ógagnsæi heimsins, og það var heimurinn sem þau vildu nálgast með byggingum sínum. Þess vegna töldu þau sig skuldbundin að leggja til handanlægan grundvöll eða handanveru-forsendur undir athuganir sínar. Á okkar tímum verðum við hins vegar vör við algjörlega nýtt fyrirbæri -ekki í vísindunum, heldur í útbreiddri heimspeki vísindanna: hinn uppbyggjandi verknaður vísindanna telur sig nú búa við fullkomið sjálfdæmi og skilgreinir sig sem slíkan, og hugsunin smættir sjálfa sig af ásettu ráði niður í heildarvirkni tækninnar eða þær uppfinningar sem hún tileinkar sér. Að hugsa merkir þá að gera tilraunir, meðhöndla eða umbreyta, með þeim eina eftirlitsfyrirvara tilraunarinnar sem eingöngu leyfir „háþróðustu“ tæki sem oftar eru afurð tækninnar en   mælikvarði hennar. Út frá þessu sjáum við flóttaleiðir af öllum tegundum og gerðum. Aldrei fyrr hafa vísindin verið jafn næm á hvers kyns vitsmunaleg tískufyrirbæri. Þegar eitthvert líkan hefur gefið góða raun innan tiltekinna raunaðstæðna er reynt að taka það upp alhliða.

Fósturþróunarfræði okkar og líffræði eru nú yfirfullar af staðalmælikvörðum (gradients) sem torvelda okkur að greina þá frá því sem klassíkerarnir kölluðu lögmál eða heildarmynd. Sú spurning er heldur ekki á dagskrá, og alls ekki til þess ætlast. Staðalmælikvarðinn er net sem kastað er í hafið án vitneskju um hvað það muni bera á land. Eða þá að hann er sprotinn sem getur af sér ófyrirsjáanlega klasa af kristalmyndunum. Þetta athafnafrelsi vísindanna er vissulega langt komið með að yfirstíga mörg innantóm álitamál, þótt einstaka sinnum reki menn sig á, andspænis þeirri spurningu hvers vegna tækið virki hér en ekki annars staðar, í stuttu máli, hvers vegna þessi fleygu vísindi, sem skilja sjálf sig og virðast sjá sig eins og byggingu er standi á grófheflaðri en tilfallandi heimsmynd, eru treg til að ljá sínum blindu aðgerðum þau grundvallargildi sem „hugtök náttúrunnar“ gátu haft til að bera í heimspeki hughyggjunnar.

Með því að segja að heimurinn samkvæmt orðanna skilgreiningu viðfangið X í rannsóknum okkar er verið að algilda þekkingarfræðilegar aðstæður vísindamannsins, rétt eins og allt það sem var eða er hafi aldrei verið til í öðrum tilgangi en þeim að vera leitt inn í rannsóknarstofuna. Þessi hugsun virkninnar verður þannig að algildum tilbúningi, eins og sjá má í hugmyndafræði stýrikerfanna (cybernetics), þar sem mannleg sköpunarverk eru rakin til náttúrulegra upplýsingaferla en jafnframt skilin á forsendum manngerðrar vélvirkni. Ef hugsun af þessari tegund gerir manninn og söguna að viðfangsefni sínu og ef hún lætur sem hún viti ekki af því sem við þekkjum af eigin raun í gegnum snertingu og afstæður, heldur byrjar að gera sér mynd af hvoru tveggja á grundvelli sértekinna (abstrakt) mælikvarða eins og gerst hefur í afdánkaðri bandarískri sálgreiningu og menningarfræðum, þá verður maðurinn í raun og veru sá leiksoppur sem hann hugsar sig vera,   þá munum við endanlega stíga inn í menningarheim þar sem   hvorki hið sanna né hið logna hafa lengur gildi gagnvart manninum og sögunni, inn í dásvefn eða martröð sem enga vakningu boða.

Það er nauðsynlegt að hin vísindalega hugsun – hugsun yfirsýnarinnar, hugsunin um hlutina almennt, finni sér nýjan stað í bráðabirgða „hér-veru“, á stað og heimavelli hins skynjanlega heims og hins manngerða heims, eins og þeir eru í okkar daglega lífi, í líkama okkar, ekki í þeim hugsanlega líkama sem vel má skilgreina sem upplýsingavél, heldur í þessum raunverulega líkama sem ég kalla minn eigin, í þessum vaktmanni sem er á hljóðu varðbergi á bak við öll mín orð og allar mínar gjörðir. Einnig er nauðsynlegt að hinir tengdu líkamar vakni til lífsis ásamt með mínum eigin, „hinir“ sem eru ekki bara kynbræður mínir og systur, eins og dýrafræðin kennir okkur, heldur einnig þeir líkamar sem dvelja í mér og sem ég dvel í, en samanlagt byggir þá ein stök Vera sem er raunverulega til staðar með öðrum hætti en þar sem dýrin hafa dvalið í dýrum sömu tegundar, í sínu landi og sínu vistkerfi. Hin glaða og hvatvísa hugsun vísindanna mun læra að tengja sig hlutunum með nýjum hætti, þannig að hún verði á ný að heimspeki…

Listirnar, og þá sérstaklega málaralistin, hafa hins vegar haldið fast í þetta hráa undirlag sem ofvirknin kýs að horfa framhjá, og þær eru einar um að gera það af fullkomnu sakleysi. Við köllum eftir ráðleggingum eða skoðunum hjá rithöfundinum eða heimspekingnum, við líðum ekki að þeir haldi fólki í óvissu, við krefjumst þess að þeir taki afstöðu, þeir geta ekki svikist undan ábyrgð hins talandi manns. Tónlistin er hins vegar of nákomin heiminum og því afmarkanlega til að geta gefið aðra mynd en af blindramma Verunnar, flæði hennar og gagnflæði, vexti hennar, útþenslu og hátindum. Málarinn er sá eini sem hefur rétt til að virða fyrir sér alla hluti án hinnar minnstu skuldbindingar um gildisdóma. Segja má um málarann að andspænis honum glati herkvaðningarnar „þekking“ og „taktu afstöðu“ öllu vægi sínu.   Þær pólitísku valdstjórnir sem hæst láta gegn hinni „úrkynjuðu“ málaralist eyðileggja sjaldnast myndverkin. Þær fela þau gjarnan, og á bak við þennan feluleik felst „það er aldrei að vita“-hugsunin sem nálgast að vera viðurkenning. Afar sjaldgæft er að ráðist sé að listmálara fyrir flótta frá raunveruleikanum. Menn bera enga biturð í garð Cézanne fyrir að hafa lifað í felum í Estaque meðan á stríðinu stóð 1870, allir vitna með virðingu til orða hans „lífið er skelfilegt“, á meðan jafnvel hinn hæverskasti nemandi eftir daga Nietzsche myndi afdráttarlaust afneita   þeirri heimspeki sem ekki kenndi honum að lifa lífinu með reisn.   Engu er líkara en að baki starfs listmálarans liggi þörf er yfirskyggi allar hinar. Hann er þarna til staðar, sterkur og veikur í lífinu, en óumdeilt yfirvald í þessari meltu heimsins án nokkurrar annarar tækni en þeirrar sem augu hans og hendur hafa áunnið sér í krafti sjónarinnar, í krafti dráttlistarinnar, þar sem hann þrjóskast við að draga léreft sín fram úr þessum heimi þar sem hneyksli og dáðir sögunnar eiga sér stað, léreft sem bæta litlu eða engu við bræðiköst og vonir mannanna, og enginn finnur aðhlátursefni í.

Hver eru þá hin leyndu vísindi sem listmálarinn hefur á valdi sínu eða leitar uppi? Þessi vídd sem Van Gogh taldi að leitaði „ennþá lengra“? Þessi grunnur málaralistarinnar, er hann kannski grunnur menningarinnar í heild sinni?

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

%d bloggers like this: