Jean Baudrillard um ljósmyndun

Þessi grein um ljósmyndun eftir Jean Baudrillard (1929 - 2007) er áhugaverð heimspekileg hugvekja um virkni og viðfangsefni ljósmyndunar í samtímanum. Ég studdist m.a. við þessa ritgerð í námskeiðisem ég stóð fyrir um ljósmyndina í Listaháskólanum árið 2002. Þessi þýðing var endurbætt og uppfærð á ný á vefinn 23.04.2018.

Jean Baudrillard:

Ljósmyndun, eða ritmál ljóssins:

Hið bókstaflega eðli myndarinnar[1]

 

Kraftaverk ljósmyndarinnar – eða hinnar svokölluðu hlutlægu myndar hennar – felast í því að hún afhjúpar með róttækum hætti óhlutlæga veröld.  Það er í sjálfu sér þversögn að skortur heimsins á hlutlægni skuli vera afhjúpaður með ljósmyndalinsunni (objectif)[2]. Hvorki rökgreining né samlíking (ressemblage) gagnast okkur við að leysa þennan vanda. Ljósmyndatæknin flytur okkur af sviði eftirlíkingarinnar yfir á svið sjónhverfingarinnar (trompe l’œil). Með sínum óraunsæju sjónrænu tæknibrellum, með bútun sinni á veruleikanum og með kyrrstöðu sinni, þögn sinni og afturfærslu hreyfingarinnar (í anda fyrirbærafræðinnar) staðfestir ljósmyndunin að í henni er að finna bæði hreinustu og fölskustu birtingu myndmálsins.

Ljósmyndunin breytir umsvifalaust skilningi okkar á tækninni. Tæknin verður vettvangur tvöfaldrar sviðsetningar: hún verður eins og stækkunargler blekkinga og forma. Til verður vanheilagt bandalag tækniheimsins og veraldarinnar. Vald hlutanna og vald „hlutlægra“ tæknibragða smella saman. Ljósmyndalistin á okkar tímum felur í sér innvígslu í þetta vanheilaga bandalag, ekki til að ná valdi á því, heldur til að spila með það og leggja þannig áherslu á að leiknum sé ólokið. „Það sem við getum ekki talað um verður að liggja í þagnargildi“[3]. En það sem ekki er hægt að segja má líka fela þögninni á vald með myndasýningum.

Málið snýst um að veita hávaðanum, skvaldrinu og orðavaðalnum viðnám með þögn ljósmyndarinnar, – að andæfa gegn hreyfingunni, flæðinu og sívaxandi hraða með hreyfingarleysi ljósmyndarinnar, – að andæfa gegn upplýsingaflæðinu og margmiðlunaráreitinu með varðveislu leyndarmáls ljósmyndarinnar, – að standa gegn siðferðiskröfu merkingarinnar með þögn merkingargjafarinnar. Mest er þó knýjandi að standa gegn sjálfvirku offlæði myndanna, endalausri runu þeirra, sem þurrkar ekki bara út sérkenni ljósmyndarinnar (le trait), þetta stingandi smáatriði  sem kallað hefur verið punctum[4] myndarinnar, heldur einnig sjálft augnablik hennar sem er umsvifalaust liðið hjá, óafturkvæmt og því óhjákvæmilega hlaðið eftirsjá. Þetta stundlega einkenni ljósmyndarinnar er því algjör andstæða samtímans í rauntímanum. Það myndaflóð sem er jöfnum höndum framleitt og þurrkað út í rauntíma er ónæmt fyrir þessari þriðju vídd sem er augnablik ljósmyndarinnar. Myndflæðið þekkir einungis breytinguna. Myndinni er ekki lengur gefið færi á að verða mynd. Til þess að myndin breytist frá því að vera hlutur í það að vera mynd kallar hún á  andrúm til þess að verða til, og það gerist einungis þegar óreiða heimsins er tímabundið stöðvuð – ef markmiðið er að afhjúpa hlutina þannig að sigurganga hinnar merkingarlegu opinberunar (epifaníu) víki fyrir þögulli apofaníu.[5] hlutarins og birtingarmynda hans.

Að finna bókstaflega eiginleika hlutanna, andstætt merkingunni og fagurfræði hennar, í því felst undirróður myndarinnar sem er sjálf orðin bókstafleg, þ.e.a.s. orðin að því sem hún er í grunninn: sú sem lætur raunveruleikann hverfa á töfraslunginn hátt. Ljósmyndin yfirfærir með vissum hætti efnislega fjarveru þessa veruleika, fjarveru sem „er svo augljós og svo auðveldlega meðtekin vegna þess að við höfum þegar á tilfinningunni að ekkert sé raunverulegt“ (Borges).

Við venjulegar aðstæður er slík fyrirbærafræði fjarverunnar útilokuð vegna þess að hugveran yfirgnæfir hlutveruna eins og yfirmáta skær og blindandi ljósgjafi. Þannig víkur bókstafleg virkni myndarinnar fyrir hinu hugmyndafræðilega, fagurfræðilega, pólitíska og fyrir þörfinni á að mynda tengsl við aðrar myndir. Flestar myndir tala og tala endalaust og yfirgnæfa með skvaldri sínu þá þöglu merkingu hlutanna sem þær sýna. Við þurfum því fyrir allan mun að losa okkur við allt sem truflar og breiðir yfir þennan þögla vitnisburð. Ljósmyndin hjálpar okkur að sía truflun hugverunnar frá og gerir hlutnum/viðfanginu kleift að beita galdri sínum, hvort sem hann er svartur eða hvítur.

Ljósmynduninni fylgir jafnframt viss tæknileg hreinsun áhorfsins í gegnum linsuna sem verndar hlutinn fyrir fagurfræðilegri ummyndun hans. Linsan býður upp á visst kæruleysi sem nær áreynslulaust að draga fram ótruflaða svipmynd hlutanna. Hún reynir hvorki að kryfja né sundurgreina einhvern „veruleika“. Þvert á móti hvílir áhorf ljósmyndarans „bókstaflega“ á yfirborði viðfangsins sem birtist með brotakenndum hætti í örskammri andrá, sem er samstundis afstaðin með brotthvarfi þess.

Það skiptir engu hvaða ljósmyndatækni við notum, ávallt er eitt atriði til staðar, og aðeins eitt: ljósið. Ljós-skrift (Foto-grafie). Ritmál ljóssins.

Ljósið sem ljósmyndin býr yfir er ekki „raunsæislegt“ eða „náttúrlegt“, hvað þá gervilegt. Öllu heldur felur þetta ljós í sér ímyndunarafl myndarinnar, hugsun hennar. Það stafar ekki frá einum ljósgjafa, heldur að vissu leyti frá tveim ólíkum ljósgjöfum: frá hlutnum og áhorfinu. „Myndin birtist á skurðpunkti þess ljóss sem stafar annars vegar frá hlutnum og hins vegar frá áhorfinu“ (Platon).

Edward Hopper: Nighthawks, 1942

Það er einmitt þessi tegund ljóss sem við finnum í verkum Edwards Hoppers. Ljós hans er hrátt, hvítt, og minnir á hafið og sjávarströndina en einnig á það óraunverulega, sótthreinsaða lofttæmi án andrúmslofts, sem er eins og komið frá annarlegri strönd. Þetta er ljómandi birta sem býr yfir áhrifamætti svart-hvítra andstæðna, jafnvel þegar notast er við liti. Persónunum, andlitunum og landslaginu er varpað inn í birtu sem er ekki þeirra, rétt eins og þau væru framandleg fyrirbæri. Þau eru lýst upp með ofurskæru ljósi sem kemur utanfrá, forboði yfirvofandi atburða. Þau eru umlukt ljóma sem er í senn afar fljótandi og grimmilega skýr.

Þetta er altækt ljós, ljósskrift í bókstaflegum skilningi, sem ætlast frekar til þess að maður horfi ekki á það, heldur þvert á móti loki augunum andspænis þeirri innri nótt sem það býr yfir. Í verkum Hoppers má finna birtuskynjun sem á sér hliðstæðu í málverkum Vermeers. En leyndardómurinn við ljósið í myndum Vermeers er innri nánd þess, á meðan ljósið í myndum Hoppers er vægðarlaus úthverfa, ljómandi efnisleiki hlutanna, birta endimarkanna og hins augljósa tóms.

Þessi hráa fyrirbærafræði ljósmyndarinnar á því eitthvað skylt við neikvæða guðfræði. Hún er „apofatísk“ með sama hætti og tíðkaðist í þeirri sönnun á tilvist Guðs sem fólst í upptalningu á því sem hann er ekki – í stað upptalningar þess sem hann er. Sama gildir um þekkingu okkar á heiminum og hlutnum: þeir birtast okkur óbeint (en creux) frekar en í beinni hólmgöngu (sem væri hvort sem er ómöguleg). Í ljósmyndun er það „skrift ljóssins“ sem er miðill þessa brottfalls merkingar og jafnframt þessarar næstum tilraunakenndu afhjúpunar. (Í fræðilegri kenningarsmíð er það tungumálið sem virkar sem táknræn sía hugsunarinnar).

Auk þessarar „apofatísku“ nálgunar hlutanna í gegnum tóm þeirra býr ljósmyndunin einnig yfir heilli dramatúrgíu, leikrænni atlögu að verknaði sem er ein aðferð til þess að höndla heiminn með því að særa hann fram (acting out).[6] Ljósmyndunin særir fram heiminn með því að skálda upp skyndilega endurvakningu (représentation) hans (ekki með beinni uppvakningu hans því endurvakningin er ávallt leikur að veruleikanum). Ljósmyndin sjálf er ekki endurvakning, hún er skáldskapur.

Einnig er sá möguleiki fyrir hendi að einmitt hér sé veruleikinn að verki við að særa fram skáldskap sinn. Ljósmyndin særir fram virkni heimsins og heimurinn gengur inn í særingarverknað ljósmyndunarinnar. Af því hljótast samantekin ráð af efnislegum toga á milli heimsins og okkar, þar sem heimurinn er aldrei annað en sífellt samsæri í verki.

Þegar við tökum myndir erum við blind. Það er bara linsan sem „sér“, en hún er falin. Það sem ljósmyndarinn fangar er því ekki Hinn, heldur öllu fremur það sem eftir stendur af Hinum þegar hann er horfinn af vettvangi. Við stöndum aldrei raunverulega andspænis viðfanginu (Hinum). Ekki er hægt að skipta á veruleikanum og mynd hans. Í besta falli er hægt að finna myndræna samsvörun þar á milli. „Hreinn“ veruleiki – ef eitthvað slíkt er til – er spurning án svars. Ljósmyndin er líka spurning sem beinist að „hreinum veruleika“, að Hinum, en væntir sér ekki svars.

Í smásögu sinni „Ævintýri ljósmyndara“ skrifar Italo Calvino:

Að ná Bice á götunni þegar hún vissi ekki að hann sæi hana, að halda henni innan sjónsviðs falinnar linsu, að taka myndir af henni ekki aðeins óséður heldur án þess að sjá hana, að koma henni að óvörum eins og hún var utan sjónsviðs hans, utan sjónsviðs nokkurs. […] Hann vildi komast yfir hina ósýnilegu Bice, algjörlega einsamla Bice, sem var til staðar án þess að gera ráð fyrir því að hann eða aðrir væru nálægir.“[7]

Seinna gerist það að ljósmyndari Calvinos fer að taka myndir af hlutum og auðum veggjum vinnustofu sinnar sem Bice hafði eitt sinn staðið við. En þessir hlutir merktu hana engan veginn og hún var fullkomlega horfin. En ljósmyndarinn er lét sig líka hverfa. Við erum vön að tala um brotthvarf viðfangsins í ljósmyndinni: Þetta var einu sinni, en er ekki lengur til staðar. Hluti af ljósmyndaverknaðinum er fólginn í eins konar táknrænu morði. En það er ekki bara viðfangið (object) sem hverfur: Hinum megin við linsuna hverfur gerandinn (subject) líka. Með hverjum smelli er gert út af við raunverulega návist bæði viðfangsins og gerandans og það er í þessu gagnkvæma brotthvarfi sem gagnkvæm sambræðsla á sér stað. Þessi gjörningur lósmyndarans heppnast ekki alltaf, en eina skilyrði þess að hann heppnist er að þessi sambræðsla eigi sér stað. Í vissum skilningi er um að ræða ákall, ákall til Hins, eða til viðfangsins um að koma út úr brotthvarfi sínu og skapa þannig skáldlegar aðstæður yfirfærslu eða skáldlega yfirfærslu aðstæðna. Ef til vill má í þessari örlagaríku gagnkvæmni sjá grilla í lausn á því vandamáli sem er þekkt sem hið fræga „getuleysi okkar til samskipta“ og birtist í þagnarmúr Hins (andspænis spyrjandanum). Kannski birtist þessi vandi skýrar í afskiptaleysinu og þeirri staðreynd að fólk og hlutir hætta í síauknum mæli að hafa merkingu.  Þetta er kvíðvænleg staða sem við reynum venjulega að koma okkur undan með þvingaðri merkingargjöf.

Einungis fáar myndir losna undan þessari þvinguðu merkingargjöf. Örfáar myndir eru ekki þvingaðar í gegnum síu tiltekinnar hugmyndar, hver svo sem hún kann að vera – en þar skipta mestu máli hugmyndir um upplýsingagildi og upprunavottun. Siðferðileg mannfræði hefur þegar tekið þá stefnu. Hugmyndin um mannkynið fór sömu leið. Þar liggur ástæða þess að nútímaljósmyndun (og ekki bara fréttaljósmyndunin) snýst ekki síst um að ná myndum af „raunverulegum“ fórnarlömbum, „raunverulegum“ líkum, „raunverulegum“ tötralýð, viðfangsefnum sem eru þannig afgreidd sem upprunavottaður vitnisburður myndrænnar samúðar.[8]

Þorri ljósmynda samtímans endurspeglar aðeins „hlutlæga“ eymd mannsins. Ekki er lengur hægt að finna frumstæðan þjóðflokk án þess að einhver mannfræðingurinn sé þar nærstaddur, ekki er lengur hægt að finna heimilislausa á ruslahaugi án óhjákvæmilegrar nærveru einhvers ljósmyndara sem birtist óðfluga til að gera þá „ódauðlega“ á filmu. Staðreyndin er þó sú að því meir sem okkur er sagt frá fátækt og ofbeldi, því meir sem því er haldið á lofti fyrir augum okkar, því minni verða áhrifin. Þetta er lögmál myndmálsins (la loi de l’immaginaire).

Myndin þarf að ná til okkar á sínum eigin forsendum, þvinga sérstæðri blekkingu sinni upp á okkur, tala til okkar á sínu upprunalega máli til þess að við getum orðið snortin af innihaldi hennar, hvert sem það kann að vera. Til þess að framkvæma yfirfærslu frá hughrifum til veruleika verður gagn-yfirfærsla myndarinnar að hafa átt sér stað, og við verðum að tryggja hana.

Við hörmum að raunveran skuli hafa horfið í skuggann á okkar tímum, þar sem öllu er nú miðlað myndrænt. En við megum heldur ekki gleyma því að veruleikinn veldur einnig brotthvarfi myndanna. Það sem fer í glatkistuna við þessa aðgerð er ekki fyrst og fremst raunveran, heldur myndin. Það gerist þegar hún hefur verið rænd upprunavottun sinni og dæmd til þátttöku í hraksmánarlegu samsæri. Í stað þess að harma missi raunverunnar gagnvart hinu yfirborðslega flóði myndanna væri okkur nær að harma glötun myndanna sem hafa bugast undan tjáningu raunverunnar. Máttur myndarinnar verður einungis endurheimtur með því að frelsa hana undan raunverunni. Og raunveran getur einungis endurheimt hina raunverulegu mynd sína með því að skila myndinni aftur sérstöðu sinni („heimsku“ sinni eins og Rosset sagði)[9] .

Svokölluð raunsæisljósmyndun nær raunar ekki að höndla það sem er, heldur er hún upptekin af því sem ætti ekki að vera: til dæmis raunveruleika eymdarinnar. Raunsæisljósmyndunin kýs að taka ekki myndir af því sem er til staðar, hún vill frekar ljósmynda það sem ætti ekki að vera til, frá siðfræðilegu og mannúðlegu sjónarmiði um leið og hún nýtir hún sér þessa eymd með fullkomlega siðlausri fagurfræði og ábatavon. Þessar ljósmyndir eru ekki vitnisburður um veruleikann heldur um algjöra afneitun hins myndaða um leið og þær fela í sér algjöra afneitun myndarinnar sem slíkrar, því héðan í frá er henni ætlað að sýna það sem vill ekki láta sýna sig og þar með að framkvæma „nauðgun á raunveruleikanum“. Þannig hefur hin örvæntingarfulla leit að „réttu myndinni“, oft leitt til dapurlegrar niðurstöðu fyrir hana sjálfa, sem felst í því að loka raunveruleikann innan raunveruleikalögmálsins, þegar markmiðið ætti að vera að frelsa raunveruleikann frá raunveruleikalögmáli sínu. Þess í stað höfum við verið bólusett með raunveruleikaveiru ljósmyndarinnar og ónæmisveiru hinna endursýndu mynda (retro-image). Í hvert sinn sem mynd er tekin af okkur stillum við okkur sjálfkrafa upp frammi fyrir linsu ljósmyndarans um leið og hann miðar út sjónarhorn linsunnar á okkur. Jafnvel „villimennirnir“ setja sig ósjálfrátt í stellingar. Allt er sviðsett fyrir málamiðlanir myndarinnar

En atburður ljósmyndarinnar er sem fyrr fólginn í árekstri viðfangsins (l’objet) og linsunnar (l’objectif) og því ofbeldi sem honum fylgir. Ljósmyndaverknaðurinn er einvígi. Það er ögrun gagnvart viðfanginu, sem andæfir gegn linsunni um leið. Allar tilraunir til að horfa framhjá þessum árekstri eru dæmdar til að leita skjóls í nýrri ljósmyndatækni eða í fagurfræði ljósmyndarinnar. Það eru auðveldustu lausnirnar.


Mike Disframer: Bændafólk, 1930(Myndin lánuð frá vefsíðu Trashure studio http://www.amsterdamtrashure.com/now-foam-disfarmer/)

Við getum látið okkur dreyma um gullöld ljósmyndunarinnar þegar myrkraklefinn (camera obscura) var ennþá hennar svið, en ekki það gagnsæja og gagnvirka rými sem hún er nú orðin. Við sjáum það til dæmis í ljósmyndum Mike Disfarmers af sveitafólkinu frá Arkansas á fimmta og sjötta áratugnum. Við sjáum í þessum myndum auðmjúkt alþýðufólk sem stillir sér  meðvitað og allt að því hátíðlega upp fyrir framan ljósmyndalinsuna. Hún reynir hins vegar hvorki að skilja þetta fólk né koma því að óvöru. Engin leit að hinu „náttúrlega“ bjó á bak við þessar myndir, né heldur nein hugmynd um hverju þetta fólk ætti að líkjast sem fyrirsætur („what they look like as photographed“)[10]. Þetta fólk er það sem það er og það brosir ekki. Það sýnir enga sjálfsvorkunn, og myndin sýnir því engan aumkunarvott heldur. Þetta fólk er utangátta í augnabliki myndarinnar ef svo mætti segja, utangátta við líf sitt og gæfuleysi, upphafið frá eymd sinni til hinnar harmsögulegu ópersónulegu ummyndunar örlaga sinna.

Myndin afhjúpar þannig sjálfa sig sem það sem hún er: upphafning þess sem hún sér í sjálfu sér. án nokkurrar íhlutunar, án nokkurrar málamiðlunar og án alls skrauts. Það sem hún afhjúpar hefur ekkert með siðaboðskap eða „hlutlægni“ að gera, heldur það sem er órætt í sérhverju okkar. Það sem hún afhjúpar heyrir ekki undir raunveruleikann, heldur hinn illa anda (malin genie) veruleikans, hvort sem hann felur í sér gæfu eða ógæfu. Hún sýnir það sem er ekki-mannlegt í okkur sjálfum og boðar engan vitnisburð eins né neins.

Þegar öllu er á botninn hvolft verður viðfangið aldrei annað en ímynduð lína og heimurinn viðfang sem er bæði yfirvofandi og óhöndlanlegt. Hversu fjarlægur er heimurinn? Hvernig stillum við hina réttu brennivídd? Er ljósmyndin spegill þar sem þessi sjóndeildarhringur viðfangsins sýnir sig í hnotskurn? Eða er það maðurinn sem falsar sjónrænar fjarvíddir og ruglar nákvæmni heimsins blindaður af kúptum spegli eigin vitundar? Rétt eins og baksýnisspeglar sumra amerískra fólksbíla sem rugla sjónrænni fjarvídd okkar en færa okkur um leið falleg varnaðarorð, því: „Objects in this mirror may be closer than they appear“? En eru þessir hlutir ekki líka fjarlægari okkur en þeir virðast? Færir ljósmyndin okkur nær svokölluðum „raunverulegum heimi“ sem í reynd er óendanlega fjarlægur okkur? Eða heldur þessi mynd heiminum þvert á móti í hæfilegri fjarlægð með því að hanna tilbúið fjarvíddarskyn sem verndar okkur fyrir yfirvofandi návist hlutanna og þeirri hættu sem af þeim stafar?

Hér er í húfi spurningin um stöðu veruleikans, spurningin um styrkleika hans. Það ætti kannski ekki að koma á óvart að ljósmyndunin hafi orðið til sem tæknilegur miðill á tíma iðnvæðingarinnar, þegar veruleikinn upphóf brotthvarf sitt. Það er líka mögulegt að það hafi jafnvel verið brotthvarf veruleikans sem hrundið af stað þessu tæknilega formi sem gerði brotthvarfinu kleift að umbreytast í mynd. Við ættum að endurskoða einfeldningslegar útskýringar okkar á uppruna tækninnar og tilkomu nútímans. Hugsanlega eru það ekki tæknin og miðlarnir sem hafa orsakað það margrædda brotthvarf veruleikans sem við stöndum nú frammi fyrir. Þvert á móti bendir allt til þess að öll tæknimenning okkar (þessi ógnvænlegu afsprengi) eigi rót sína að rekja til stigvaxandi brotthvarfs veruleikans.

[1] Þýtt úr Jean Baudrillard: Impossible Exchange, Verso, útg.  London og NYC 2001 í þýðingu Chris Turners, bls. 139-147. Orðið photographie merkir bóskataflega „ritmál ljóssins“.

[2] Orðið objectif á frönsku merkir bæði „linsa“ og „hlutlægur“.

[3] Tilvitnun í kunna setningu Ludwigs Wittgensteins. „Worüber man nicht sprechen kann, darüber muss man schweigen“ (Tractatus Logico Philosophicus, 7.)

[4] Roland Barthes talar um sérkenni eða efnisatriði í mynd sem skjótist út úr henni eins og ör. Nokkuð sem hann kallar „punctum“ myndarinnar, en það er „það er atriðið sem stingur mig (og getur einnig brennt mig eða vakið sterk viðbrögð)“.  Barthes: Camera lucida.. London Vintage 1993, bls. 27.

[5] Hér leikur höfundur á merkingu orða sem eiga sér grískan uppruna: apofanía merkir það þegar eitthvað er gefið í skyn með því að segja að það sé ekki til umræðu. Epifanía merkir hins vegar opinberun eða guðdómlega birtingu sannleikans.

[6] Höfundur notar ensku orðin „acting it out“ í franska frumtextanum.

[7] Italo Calvino, „Ævintýri ljósmyndara“, Ingibjörg Þorsteinsdóttir þýddi, Stína. Tímarit um bókmenntir og listir, 2. hefti, 10. árg., 2015, bls. 70–79, hér 78.

[8] Hugtakið „raunverulegur“ í þessu samhengi er þýðing á hugtakinu „en tant que tels“ eða „sem slíkur“.

[9] Hér er trúlega vitnað til Clement Rosset, t.d.: Joyful Cruelty: Toward a Philosophy of the Real. New York: Oxford University Press, 1993.

[10] Þetta er á ensku í frumtextanum.

 

 

 

Forsíðumyndin er ljósmynd eftir Jean Baudrillard

 

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

%d bloggers like this: