HINN FAGRI DAUÐI I. Vernant um hinn gríska dauða

medusa Siracusa

Námsefni fyrir Listaháskólann

Undanfarin ár hef ég staðið fyrir námskeiðum í Listaháskólanum sem hafa borið fyrirsögnina EROS og hafa byggst á lestri og yfirferð Samdrykkjunnar eftir Platon og fleiri tengdra texta um leið og leitað var hugmyndalegra tengsla við þessar heimildir í sögu myndlistarinnar. Þegar ég var beðinn um að búa til nýtt námskeið í Listaháskólanum í framhaldi af námskeiðinu um ástina fann ég ekki betra viðfangsefni en dauðann, svo nátengd sem þessi viðfangsefni eru í lífinu og listinni. Hugmyndir verða seint skildar nema við reynum að grafast fyrir um upphaf þeirra, og því hef ég hugsað mér að hefja þetta námskeið einnig í Grikklandi, þar sem við finnum rætur okkar vestrænu menningar. Þar kkoma Sókrates og dauði hans einnig við sögu, en áður en við leitum í heimspekilegar hugmyndir Platons og Sókratesar munum við fjalla um þann goðsagnaheim og þann heim söguljóða sem var undanfari heimspekinnar. Þar hef ég leitað í smiðju franska textafræðingsins og trúarbragðafræðingsins Jean-Pierre Vernant, en hann hefur ritað af sinni alkunnu snilld um hugmyndir Forngrikkja um dauðann og að hvaða leyti þær eru frábrugðnar gyðinglegum og kristnum heimildum. Þessi texti er birtur hér fyrir væntanlega nemendur mína í LHÍ eftir áramótin og öðrum lesendum þessarar vefsíðu til fróðleiks og skemmtunar.

Ajax með lík Akillesar Delfi 530fKr

Ajax með lík Akkilesar í Trójustríðinu. Sikiley um 530 f.Kr.

Tvær ásjónur dauðans meðal Grikkja

eftir Jean-Pierre Vernant

(Fyrsti kafli bókarinnar La mort dans les yeux, París 1985. Höfundurinn er meðal fremstu sérfræðinga samtímans í goðsagna- og hugmyndaheimi Forn-Grikkja og höfundur margra sígildra rita á því sviði.)

Dauðinn sem gegnir meginhlutverki í söguljóðum Grikkja birtist okkur sem eitthvað tvírætt og háskalegt. Í raun ber hann tvær andstæðar ásjónur. Önnur þeirra sýnir okkur dauðann í dýrðarljóma sínum sem sú fullkomnun sem hin sanna hetja helgar líf sitt, hin ásjónan er holdgervingur hins ósegjanlega og óbærilega og birtist okkur sem ógnvænleg skelfing.

Það er ætlun mín að bregða ljósi á merkingu þessarar tvöföldu ásjónu dauðans um leið og ég vildi undirstrika hvernig þessi tvö andlit dauðans eru óaðskiljanleg meðal Forn-Grikkja og bæta hvort annað upp.

Dauðinn sem fullkomnun á lífi hetjunnar. Hvernig er þessi hugmynd möguleg?

Við skulum hlusta á Akilles, fyrirmyndarhetjuna, þann sem í Ilíonskviðu er kynntur til sögunnar sem „hinn besti meðal Akkea“, hin fullkomna fyrirmynd. Hann segir að sér hafi frá upphafi verið boðin tvenns konar örlög: annars vegar löng tilvist í fæðingarbæ sínum, þar sem hann mundi njóta heimilisfriðar án nokkurrar dýrðar. Hins vegar „stutt líf“ og  „ótímabæran dauða“ í blóma lífsins á vígvellinum og eilífa dýrð.

Þar sem hetjan hafnaði langlífi og helgaði sig um leið stríðinu, afreksverkunum og dauðanum, þá leitaðist hún um leið við að tryggja sér stöðu sem hinn dáni í dýrðarljóma – eins og sá látni sem dáið hefur „fögrum dauða“ eins og Grikkir orða það – því ekki er önnur leið möguleg fyrir dauðlega mannveru, vilji hún festa nafn sitt, gjörðir sínar og lífshlaup í minni eftirkomendanna um alla framtíð.  „Þeir deyja ungir sem guðirnir elska“, sagði Menander. Hetjan deyr ung, en mynd hennar lifir í blóma óbreytanlegrar æsku meðal komandi kynslóða um alla framtíð. Hetjuímyndin sem söguljóðið byggir á felur þannig í sér eitt af þeim svörum sem Grikkir gáfu við óhjákvæmilegri hnignun líkamans, öldrun hans og óhjákvæmilegum dauða.

Í þessu ljósi má sjá ákveðna hliðstæðu og samhengi á milli útfararsiða Grikkja og hetjuljóðanna. En hetjuljóðið gengur einu skrefi lengra. Útfararsiðirnir hafa þann tilgang að veita sérhverjum þeim sem glatar lífi sínu aðgengi að nýrri samfélagslegri tilvist, að umbreyta fjarvist hins látna í jákvæða og meira og minna varanlega samfélagslega stöðu sem hinn látni.

Hetjuljóðið gengur lengra. Með því að hefja til dýrðar með eilífri endurtekningu nafn, frægð og drýgðar dáðir lofar það örlitlum minnihluta útvaldra (sem skera sig úr öllum fjölda hinna látnu, sem kallast „hinn nafnlausi fjöldi“) að nöfn þeirra muni lifa um alla framtíð, frægð þeirra og dáðir. Þannig fullkomnar hetjuljóðið og kórónar það ferli sem á upphaf sitt í útfararsiðunum. Það umbreytir einstaklingi sem hefur lokið tilvist sinni yfir í persónumynd sem verður um alla framtíð skráð í tilvist samfélagsins með návist sinni sem hinn látni.

Í samanburði við aðrar menningarþjóðir felur afstaða Grikkja til dauðans í sér tvö megineinkenni, sem eru einstök. Annað varðar sérstaka þætti í persónuleika hins dána, hitt varðar það form sem samfélagið gefur minningu hins látna.

Í hlutverki sínu sem hinn látni er ekki litið til hetjunnar sem fulltrúa tiltekinnar fjölskyldu eða kynstofns, eins og hlekkur í framþróun kynslóðanna, og heldur ekki sem handhafa konunglegs eða trúarlegs hlutverks á efstu þrepum þjóðfélagsstigans.

Í hetjuljóðinu sem lofsyngur dýrð hetjunnar og í táknmyndinni sem prýðir gröf hennar birtist hetjan sem einstaklingur sem er skilgreindur í krafti sjálfs sín og af eigin verkum. Sem látinn maður hefur hann uppfyllt með lífshlaupi sínu og í blóma lífsins „hinn fagra dauða“ bardagamannsins.

Að eiga sér „einstaklingsbundna“ tilvist hefur þá sömu merkingu fyrir Grikkjum eins og að vera „eftirminnilegur“. Menn geta losnað undan nafnleysinu, gleymskunni og brotthvarfinu – já undan dauðanum – með dauðanum sjálfum, slíkum dauða er opnar þér leið að söng hetjukvæðanna og gerir nærveru þína enn nákomnari innan samfélagsins sem dáin hetja en hinir lifandi geta nokkurn tíman vænst.

Þessi samfellda nærvera í hjarta samfélagsins er fyrst og fremst hetjukvæðinu að þakka vegna forms þess sem munnleg sönglist.[1] Með því að vegsama hetjudáðir horfinna tíma gegnir þessi söngur hlutverki hins samfélagslega minnis.

Hetjuljóðið festir í sessi ákveðið samband á milli samfélagsins og hins látna. Fyrst gerist það með því að læra utanbókar sönginn sem er síendurtekinn í eyrum allra, síðan gerist það í gegnum minningu útfararinnar sem haldin er í augsýn allra. Þessi samfélagslega athöfn er ekki takmörkuð við fjölskylduna. Hún takmarkast ekki heldur við ákveðinn samfélagshóp eða stétt. Með því að leysa hetjuna undan gleymskunni sviptir minningin hana líka fjölskyldutengslum sínu og einkalífi. Hún verður hluti hins opinbera og verður hluti af sameiginlegum menningararfi Grikkja. Í söguljóðunum og í gegnum þau verða hetjurnar að táknmynd þeirra sem voru „áður fyrr“ og mynda þannig „fortíð“ hópsins eða samfélagsins. Þannig mynda þeir þær rætur sem menningarhefðin byggir á og verða það sement sem heldur Hellenum saman og myndar sjálfsímynd þeirra, því það er einungis í gegnum athafnir þessara horfnu persóna sem samfélagsleg tilvist þeirra öðlast merkingu, gildi og samfellu.

Einstaklingseðli hins látna tengist ekki sálfræðilegum mannkostum hans eða eiginleikum sem algjölega einstök sjálfsvitund. Með dáðum sínum og sínu stutta lífi, með hinum hetjufullu örlögum sínum verður hetjan holdtekja tiltekinna „gilda“. Það eru gildi eins og fegurð, æska, karlmennska, hugrekki. En staðfestan sem ævi hetjunnar sýnir, höfnun hennar á öllum málamiðlunum, róttæknin sem felst í gjörðum hennar og sú endanlega köllun sem fær hana til þess að velja dauðann til þess að öðlast dýrðina, gefa þeirri „fyrirmynd“ sem hún verður fyrir fjöldann ákveðna endurómun og langlífi sem öðru fólki er fyrirmunað að öðlast. Það er hið mikla fordæmi hinnar hetjulegu persónu eins og því er lýst í hetjusöngnum og minnismerkjunum, það eru hinar lífsnauðsynlegu og „veraldlegu“ dyggðir sem fólgnar eru í hreisti hennar, fegurð, æsku og baráttugleði sem veita hetjunni þá staðfestu og þann varanleika í hugum fólksins, sem duga til að frelsa hana undan óhjákvæmilegri hrörnun alls þess sem mannin prýðir. Með því að frelsa nöfn hetjanna undan gleymskunni er hið samfélagslega minni í raun og veru að festa í sessi sem altæk sannindi ákveðið kerfi af gildum, og vernda þau þannig gegn fallvaltleikanum og upplausninni. Í stuttu máli með því að leysa þau undan tímanum og dauðanum.

Sambandið sem hið samfélagslega minni skapar,  á milli einstaklingsins og hetjusögu hans annars vegar og alls almennings hins vegar, þetta samband færir hina grísku reynslu af dauðanum yfir á fagurfræðilegt og siðfræðilegt svið (með „frumspekilegri“ vídd).

Rétt eins og Grikkir bjuggu til það sem sagnfræðingar stærðfræðinnar kalla hið fullkomna (ideala) rými, þá má segja að þeir hafi líka búið til hinn fullkomna dauða, eða öllu heldur þá hafi þeir leitast við að fella dauðann inn í samfélagið og siðmenninguna – þeas. gera hann náttúrlegan – með því að gera hann að fullkomnun lífsins.

Söguljóðið hefur ekki aðeins ljáð andliti dauðans dýrðarljóma hinnar ýtrustu tilvistar, ljósbjarma lífsins, – lífs sem þarf fyrst og fremst að tortíma sjálfu sér til þess að fullnema sig og göfga, þarf að hverfa af yfirborði heimsins til þess að tryggja eilífa tilvist sína og umbreytast í þá dýrð sem lofsungin er í skáldskap. Söguljóðið hefur með margvíslegum hætti afneitað þeirri sömu fullkomnun og það átti samkvæmt köllun sinni að skapa með söng sínum.

Þegar sagnatextinn takmarkast við það að tefla saman hinum fagra dauða hins unga bardagamanns – sem féll hetjulega á hápunkti orrustunnar og í blóma lífs síns – saman við hinn hryllilega dauðdaga gamlingjans sem er varnarlaus stunginn á hol eins og sláturdýr, eða þegar hið aðdáunarverða lík hetjunnar, sem liggur á vígvellinum og gerir allt umhverfi sitt fagurt, er borið saman við sundurlimað og óþekkjanlegt lík sem búið er að afmynda og misþyrma eins og hræi, sem skilið er eftir hrædýrum að bráð eða látið rotna ógrafið, þá verða þessar andstæður ekki til þess að varpa ljósi á hið raunverulega vandamál. Þessar tvær andstæðu myndir dauðans fá á sig sterkari og meira afgerandi mynd með gagnkvæmri afneitun.

Við höfum hins vegar dæmi þess að afneitunin verður eins og innan frá séð til þess að setja spurningu við einmitt það sem söguljóðið upphefur með hinum fagra dauða. Annars vegar eru það hin dýrðlegu örlög hetjunnar. Hins vegar dregur söguljóðið upp með raunsæislegri lýsingu sinni svo skelfilega mynd af dauðanum almennt og þeim hryllingi sem hann vekur með hverjum manni, að það gjald sem greiða þarf fyrir „ógleymanleikann“ virðist í raun og veru afar hátt, þannig að hugsjón „eilífrar dýrðar“ á það á hættu að birtast sem tálsýn og blekking.

Við getum byrjað á almennum grundvallaratriðum. Ef dauðinn myndi ekki birtast okkur í söguljóðinu sem hámark hryllingsins, ef hann fengi ekki að láni ófreskjugrímu Medúsu til þess að gæða holdi það sem er mannlegum mætti um megn, hið ósegjanlega, hið óhugsanlega, hið róttæka annað, þá væri ekki til staðar nein upphafin hetjuímynd. Hetjan hefði þá engan ávinning af því að horfast í augu við dauðann, að velja hann og gera hann að sínum dauða. Það er engin hetja til staðar án þeirrar ófreskju sem þarf að takast á við og sigra. Mótun hinnar upphöfnu myndar dauðans getur ekki falist í því að sneiða hjá eða afneita hinum skelfilega veruleika hans. Þvert á móti, þá verður hin upphafna mynd ekki smíðuð nema „raunveruleikinn“ sé nákvæmlega skilgreindur sem andstæða þessarar myndar. (Rétt eins og uppbygging fullkomins og abstrakt stærðfræðilegs rýmis byggist á því að gengisfella hið skynjanlega rými). Bygging hinnar fullkomnu ímyndar dauðans þarf að rísa á þessum raunveruleika eins og hann er, en ekki á afneitun hans -og stefna síðan að því að snúa honum við með öfugu sjónarhorni.

Söguljóðið bætir annarri spurningu við þá almennu (með hvaða hætti sérhvert líf hrörni og tortímist í dauða) með því að spyrja hvernig hinir látnu geti um alla framtíð verið til staðar og tekið þátt í lífi hinna lifandi.

Af þessum tveim spurningum er það sú fyrri sem gerir dauðan að ímynd hins ólæknanlega og óhjákvæmilega illa, á meðan hin seinni gerir hetjudauðann að frumforsendu dýrðlegs framhaldslífs í minni samfélagsins. Báðar eiga þær það sameiginlegt að snerta eingöngu hina lifandi. Smánarlegur eða dýrðlegur í fullkomnun sinni jafnt sem í raunveruleika sínum snertir dauðinn eigöngu þá sem eru í lifenda tölu.

Það er einmitt ómöguleiki þess að hugsa dauðann frá sjónarhóli hinna látnu sem gerir hann skelfilegan, sem skapar hinn róttæka framandleika hans og hina altæku handanveru hans og gerir lifendum jafnframt kleift að yfirstíga hann með því að skapa innan samfélagsins samfellda minningu um einstaka dauðdaga. Sem miðill hins sameiginlega minnis mannanna verður söguljóðið ekki gert fyrir hina dauðu. Þegar það fjallar um þá og dauðdaga þeirra, þá talar það ávalt til lifenda. Um dauðann í sjálfum sér er ekkert sérstakt að segja, né heldur um hina dauðu meðal hinna dauðu. Þeir eru komnir yfir þann þröskuld sem enginn getur yfirstigið án þess að hverfa, sem engin orð geta höndlað án þess að tapa merkingu sinni: yfir í þann næturheim þar sem þögnin ríkir, þögn og æpandi hávaði í senn.

Frá því er sagt í ellefta þætti Odysseifskviðu, að þegar Odysseifur hafði náð löndum Kímmería umluktur næturmyrkri og náð að sigla yfir vötnin í Ókeansstraumi, þá var hann kominn að landamærum heimsins og steig á land á ströndinni í ríki Hadesar. Það er á þessum stað sem hetjan lifandi mætir skugga hins dauða Akillesar. Hvaða orð fara þarna á milli andspyrnuhetjunnar (sem á sér þann eina draum að snúa heim gegn vötnum og vindum) og „hins besta meðal Akkea“, fyrirmyndar hins hetjufulla hermanns, sem öll Illionskviða hyllir í minningunni, vegna þess að hann kaus hið skammvinna líf og kunni að ávinna sér með hinum fagra dauða þá dýrð sem stendur að eilífu? Hinn lifandi Odysseifur, sem reyndur er af endalausum raunum og sjávarháskum, er ekki í neinum vafa þegar hann heilsar Akkilesi, hinum „fullsælasta meðal manna“[2], þeim sem allir tignuðu eins og guð meðan hann var í lifenda lífi og sem í ríki Hadesar stendur ofar öllum og heldur áfram að hunsa sársaukann, hin sameiginlegu örlög allra dauðlegra. En það er eins og svar Akillesar slái botninn undan öllu því hátimbraða lofi sem Ilíonskviða reisir til þess að réttlæta, heiðra og lofsyngja hinn fagra dauðdaga hetjunnar.

Gerðu það fyrir mig, frægi Odysseifur, nefndu ekki dauðann við mig. Heldur vildi ég kjósa að lifa í sveit, og vera kaupamaður hjá einhverjum fátæklingi, sem ekki hefði stórt fyrir sig að leggja, en að ráða yfir öllum dauðu draugunum„,

segir Akilles við Odysseif. Jafnvel þótt við göngum út frá því að Odysseifskviða sé skrifuð sem ádeila gegn Illíonskviðu og að persónur þeirra, Odysseifur og Akilles, takist á um hylli lesendanna, þá fer ekki hjá því að þessi frásögn virðist ganga eins langt og hægt er í afneitun hins hetjufulla dauðdaga og festa þá afneitun innan ramma söguljóðsins sjálfs. Afneitun þess sama hetjudauðdaga sem skáldið hafði kynnt til sögunnar í dýrðarljóma hins eilífa sigurs.

En er hér í raun og veru um þversögn að ræða?

Sú væri raunin ef Grikkir hefðu séð dýrðarljómann fyrir sér í ríki hinna dauðu, ef laun hins hetjufulla dauðdaga hefðu falist inngöngunni í Paradís, en ekki inn í varanlegt sameiginlegt minni eftirlifendanna.

Akkiles hefur engin eyru til þess að hlusta á lofsöngvana um hetjudáðir sínar í landi skugganna, þar hefur hann ekkert minni til að framkalla og varðveita minningu sína. Akkilles getur eingöngu endurheimt skynjun sína, huga og vitund – sjálfsvitund sína – á því örskamma augnabliki þegar hann hafði drukkið blóð fórnarlambsins sem Odysseifur hafði drepið til að geta vakið upp hina dauðu, á þeirri stundu endurupplifir hann augnablikssamband við heim hinna lifandi.

Áður en hann tínir sér og hverfur aftur inn í formlausan fjölda hinna dauðu nær hann á örskotsstund að njóta þeirra tíðinda að sonur hans sé enn í tölu lifenda og ali með sér sömu hetjulund og faðirinn. Framhaldslíf þeirrar dýrðar sem Akkilles gaf líf sitt fyrir og galt með dauða sínum er það sem heltekur huga Odysseifs og félaga hans, sem allir standa í þeirri fjallgrimmu trú, að engin örlög séu eftirsóknarverðari en einmitt Akkillesar. Þessi trú heltekur líka huga Neoptólemusar, sem kaus ekkert fremur en að jafnast á við föður sinn, og það er þessi trú sem heltekur huga allra lifandi lesenda Hómers, sem ekki geta skilið tilveru sína og sjálfsmynd nema í ljósi hins hetjufulla fordæmis.

En í Hades er ekkert rými fyrir dýrðarljómann, því Hades er staður Gleymskunnar. Hvernig ættu hinir dauðu að muna? Það er ekki hægt að muna nema í tímanum. Hinir dauðu lifa ekki í tímanum, hvorki í hinum hverfula tíma lifenda né í óbreytanlegum tíma hinna ódauðlegu guða. Höfuð hinna dauðu eru tóm og magnþrota, umlukin myrkri, þau hafa einskis að minnast.

Sögunni af Nekyia[3], sem við höfum nú aðeins dokað við, lýkur með skyndilegri brottför Odysseifs er hann stígur á skipsfjöl. Hann varð skyndilega heltekinn hinum „bleika ótta“ , því hann óttaðist að þarna, á botni Hadesarheima, myndi Persefóna senda honum „höfuð Gorgóar, hinnar hræðilegu óvættar“ (Odysseifskviða XI, 633-35). Þetta höfuð, sem breytir þeim er horfir í glirnur þess í stein, markar skilin á milli lifenda og dauðra. Þetta höfuð Medúsu lokar jafnframt öllum hliðum Hadesarheima fyrir þeim sem enn tilheyra heimi ljóssins, heimi hinnar skýru orðræðu, heimi minninganna og þeim heimi þar sem sérhver vera hefur sína eigin ímynd (sitt eidos) og er því hún sjálf, þar til hún er komin yfir í annan heim: þennan stað myrkurs, gleymsku og óreiðu sem ekkert orð megnar að lýsa.

Odysseifur hafði þegar fengið að kenna á þessum skelfilega hryllingi sem gríma Gorgónunnar megnar að vekja í upphafi Nekyia, og þá tjáði hann tilfinningu sína með sömu orðum: „greip mig þá bleikur ótti“ (XI,43). Það var ekki gríma Medúsu sem þá varð til að vekja með Odysseifi hrylling, heldur sú skelfilega handanveröld sem býr að baki henni. Hann óttaðist að sjá með einhverjum hætti út yfir þröskuld hinna dauðu, þar sem þeir söfnuðust saman, villuráfandi hjörð hinna dauðu, óendanleg þvaga af skuggum sem ekki eru lengur persónur og sem í óendanlegri mergð sinni hafa ekki lengur neitt mannlegt að geyma.

Odysseifur byrjar á því að vekja hina dauðu upp, til þess að geta spurt skuggavofu Tíresíasar um leiðina til Íþöku. Að vekja upp merkir það sama og að koma reglu og tölu á þessa formlausu mergð, að skilja einstaklinga frá þvögunni og þvinga þá til að fara í biðröð, einn eftir öðrum, að láta þá kynna sig, hvern á fætur öðrum, að láta þá tala í eigin nafni og muna.

Odysseifur er hetja tryggðarinnar við lífið, og hann framkvæmir helgiathöfn uppvakningarinnar sem nær að endurkynna víðkunna dauðingja til heims hinna lifandi, að framkvæma sama verknað og sagnaskáldið gerir innblásið af listagyðjunni Mnemosyne (gyðja minnisins) þar sem það upphefur minningasöng sinn, en um leið játar Odysseifur sig ófæran um að nefna nöfn og störf allrar þeirrar ógreinilegu þvögu bardagamanna er látið hafði lífið undir borgarmúrum Tróju. Út úr þessum nafnlausa og formlausa fjölda dregur hann nokkra útvalda. Með sama hætti beitir Odysseifur sverði sínu til þess að halda hinni gríðarmiklu þvögu skugganna frá blóði fórnarlambanna, þannig að einungis þeir fái að drekka af blóðinu sem hann kannast við vegna þess að nafn þeirra hefur varðveist frá gleymskunni í frásagnarlistinni.

Frásögnin af Nekyia er ekki í mótsögn við hinn hetjufulla dauðdaga, hinn fagra dauða. Hún staðfestir hann og fullkomnar. Hinn skefilegi heimur hinna dauðu er heimur óreiðunnar, hins óskiljanlega, þar sem ekkert og enginn á sér lengur tilvist. Það eru ekki til önnur gildi en gildi lífsins, enginn annar veruleiki en veruleiki hinna lifandi.

Ef Akilles kýs að deyja ungur, þá felur það ekki í sér að hann setji dauðann á hærri stall en lífið. Þvert á móti þá getur hann ekki meðtekið það að falla í djúpið eins og allir aðrir, niður í myrkur gleymskunnar, að blandast hinni nafnlausu, formlausu þvögu þeirra sem ekkert nafn bera. Hann kýs frekar að halda áfram að vera á meðal hinna lifandi að eilífu, að lifa af meðal þeirra og í þeim, og vera þar í eigin mynd, frábrugðinn öllum öðrum, í gegnum óbrotgjarnrar minningar um nafn sitt og frægð.

Upphafning hins gríska dauða er fólgin í þessari hetjufullu tilraun til að varpa frá sér, eins langt og nokkur kostur er, út yfir þröskuld hins óyfirstíganlega, þessari skelfingu óreiðunnar, formleysunnar, rökleysunnar, og að staðfesta um leið, þrátt fyrir allt, hið samfélagslega framhaldslíf þessa mannlega einstaklingseðlis, sem af náttúrunnar völdum er dæmt til að hrörna og hverfa.

[1] Hetju- og söguljóð á borð við kviður Hómers voru ætluð til söngs og munnlegs flutnings – innsk þýð.

[2] sbr Odysseifskviða, Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1973, XI, 467-504 bls 178-9

[3] Hugtakið Nekyia er grískt og var notað um þá athöfn að kalla hina látnu til vitnisburðar um hvað framtíðin bæri í skauti sínu. Eins konar miðilsfundur. Hómer notar þetta hugtak í Odysseifskviðu um þetta ferðalag Odysseifs til Hadesarheima til að leita leiðsagnar Tiresiasar hins forvitra í hafvillum sínum. Jung notaði þetta hugtak um vegferð mannsins í gegnum undirvitundina til þess að leita uppruna síns og sinnar eiginlegu veru.

Forsíðumyndin sýnir Medúsu með Pegasus, úr grísku hofi á Sikiley frá 6. öld f.Kr

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

%d bloggers like this: