ÞEKKING MERKJANNA VI – Carlo Sini

CARLO SINI:

UPPNÁM MERKISINS OG DAUÐINN

 

VI

Postscriptum

Eftirmáli bókarinnar Il sapere dei segni, bls. 151-152

 

Á meðan Sókrates dvaldi í fangelsinu í Aþenu, sinni síðustu vistarveru, sótti endurtekið á hann sami draumurinn. Hann sagði vinum sínum frá þessu þar sem þeir söfnuðust í fangaklefann á hinsta degi hins dauðlega lífs heimspekingsins. Í draumnum var ítrekað farið fram á það við Sókrates að hann „fremdi tónlist“: „O Socrates, mousiken poiei kai ergazou…“ „Sókrates, þú átt að semja músík og flytja hana“ (Fedon, 60e)[i]

„Ég hélt þá“, sagði Sókrates, „að draumurinn væri að hvetja mig til að gera það sem ég var þegar upptekinn af, það er að segja að helga mig músíkinni með heimspekinni, þar sem heimspekin er göfugasta músíkin („os philosophias men ouses megistes mousikes“, 61a).

Þá helltist sú efasemd yfir hann að draumurinn merkti að hann ætti að fremja músík í bókstaflegri merkingu, að um væri að ræða að poiein mythous all‘ou logous, „að semja sögur en ekki rðksemdafærslur“. Því ákvað hann að eyða síðustu dögum sínum í það verkefni að umrita dæmisögur Fedrosar yfir í ljóðlist og tónlist, kannski í þeim tilgangi að mennta „smádrenginn“ sem í okkur öllum óttast myrkrið og hopar andspænis dauðanum, um leið og hann huggaði hann með þeirri tónlist sem hann hafði alist upp við í bernsku.

Að leiðarlokum getum við fyrir okkar hönd tekið áhættuna af því að setja fram okkar túlkun á hvatningarorðum draumsins. Við gætum til dæmis minnst þess að hafa skilið það svo, að tónlistin andæfi ekki gegn tungumálinu, heldur þvert á móti undirbúi það með því að heimfæra orðin til merkingarlegs uppruna þeirra, það er að segja inn í þá fjarlægð sem takturinn (ritmo) framkallar, sem er hinn frumlægi sláttur atburðarins og heimsins, mousike cosmopoietica, takturinn sem allir hlutir heimsins eiga rætur sínar í. Í þessum skilningi er heimspekin í raun og veru þekking og iðkun dauðans, eins og Platon vildi hafa það, en við leiðarlok þess lífs sem einkennir einmitt hinn dauðlega sem stöðugt sveiflast á milli dauðans og eilífs lífs.

Í þessari sveiflu býður heimurinn sig fram í ímyndum (figure) sem eru tækifæri hugsunarinnar og „músíkölsk“ form, „frásagnarleg“ merki sem leiðbeina og styðja okkar daglegu „framkvæmd“ (esecuzione) lífsins[ii]. Í gegnum þessar ímyndir náum við fram til þess skilnings á harmleiknum og friðinum, á tortímingunni og endurfæðingunni, sem Whitehead talar um. Skilnings er opnar leið að heimspekilegri hugsun og að iðkun músíkurinnar (mousike) þar sem innöndun (aspirazione) endurfæddrar og mögulegrar fegurðar heimsins stendur ekki í vegi fyrir eyðandi og uppbyggjandi verki dauðans og örlaganna sem geymsla sérhvers merkis hins liðna og ókomna: kærleikur hugtaksins sem afþakkar „bráð“ sína til þess að lífið megi ganga um garð í eilífri endurkomu þeirra túlkana sem koma munu.

 

[i] Orðið „músik“ sem notað er í flestum tungumálum um „tónlist“ er grískt að uppruna og hefur víðari og dýpri merkingu en íslenska orðið, það sem það er dregið af orðinu „musa“ sem merkir listagyðja, og vísar því óbeint til fleiri listgreina, auk þess sem Mnemosyne, gyðja minnisins, var jafnframt móðir listagyðjanna. Bein þýðing á „musica“ sem tónlist getur því í vissum tilfellum (eins og hér) verið takmarkandi eða beinlínis röng, þar sem hún strikar yfir goðsögulegan merkingarbakgrunn orðsins.

 

[ii] Orðið esecuzione hefur tvöfalda merkingu: framkvæmd og aftaka.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

%d bloggers like this: