HEIMSPEKINGUR HUGLEIÐIR KERTALJÓS – Gaston Bachelard

Fyrir nokkrum árum varð ég upptendraður af skrifum franska heimspekingsins Gaston Bachelards (1884-1962) um táknmál og sálfræði efnisheimsins. Í kjölfarið bjó ég til nokkur námskeið og fyrirlestra fyrir Listaháskóla Íslands og Endurmenntun HÍ sem báru heiti höfuðskepnanna, „Jörð vatn loft og eldur“. Meðal námsefnis þessara námskeiða voru nokkrir kaflar sem ég þýddi úr verkum Gastons Bachelards. Hér er eitt þessara textabrota, fyrsti kaflinn úr meistaraverki hans um eldinn: La flamme d’une chandelle, sem var eitt af því síðasta sem hann skrifaði. Bachelard var menntaður í sögu vísindanna en mörg frægustu verka hans eru á sviði bókmenntagagnrýni og sálgreiningar þar sem vitund dagdraumanna og virkni mannshugans gegna lykilhlutverki eins og fram kemur í þessum texta. 

Þessi þýðing er gerð eftir ítalskri útáfu frá Milano 1966. Textinn gefur innsýn í skilning Bachelards á hugtakinu „rệverie“, sem gegnir lykilhlutverki í bókmenntarýni hans, og mætti hugsanlega kalla „draumaheim“ á íslensku eða „heim dagdraumanna og ímyndunaraflsins“, en það er það ástand þegar vitund mannsins yfirgefur þær þröngu forsendur sem henni eru settar í reynsluheimi hversdagsins og gefur sig á vald ímyndunaraflsins og draumsins, „rệve„, verandi engu að síður með fullri vökuvitund. Þannig er „rệverie“ Bachelards vitundarástand sem er mitt á milli svefns og vöku og einkennist af miklu frelsi hugans. Slíkt hugarástand er að hans mati ekki síður marktækt fyrir þekkingu mansinns á heiminum en sú aðferð sem þekkingarfræði vísindahyggjunnar býður uppá. 

Þýðingin var gerð 2009.

Heimspekingur hugleiðir kertaljós

eftir Gaston Bachelard

I.

Einu sinni, á tímum sem jafnvel draumarnir hafa gleymt, gat loginn á einu kerti komið hinum vitru til að hugleiða; hann gat orðið hinum einmana heimspekingi uppspretta endalausra drauma.

Við hlið hlutanna á skrifborði hans, sem voru fangar forms síns, við hliðina á bókunum sem veittu seinvirka leiðsögn, gat kertaloginn vakið upp endalausar hugsanir og kallað fram takmarkalausar myndir. Fyrir mann sem gaf sig á vald draumheimanna var kertaloginn á þeim tíma fyrirbæri heimsins. Menn lögðu sig fram um að læra um byggingu heimsins af þykkum doðröntum, en svo var það örlítill logi – ó, skoplega þekking! – sem tendraði gátuna ljóslifandi fyrir honum.

Lifir allur heimurinn kannski ekki í einum kertaloga? Og á login sér ekki líf? Er hann kannski ekki hið sýnilega merki nákominnar veru, merki um leynilegan mátt? Hefur þessi logi kannski ekki til að bera allar þær innri þverstæður sem veita grundvallarforsendum allrar frumspeki sprengikraft sinn? Til hvers að leita að díalektík hugmyndanna þegar hægt er að finna í hjarta svo einfalds fyrirbæris alla díalektík staðreyndanna og alla díalektík fyrirbæranna? Loginn er fyrirbæri án efnismassa, en engu að síður er hann sterk vera.

Ef við mögnum upp þær myndir sem sameina lífið og logann vaknar sú spurning, hvaða svið myndlíkinga við ættum að rannsaka til þess að geta skrifað „sálfræði“ loganna og um leið „eðlisfræði“ lífsloganna! Myndlíkingar? Á þeim tímum ævafornrar þekkingar þar sem loginn kom hinum vitru til að hugsa voru myndlíkingar sama og hugsanir.

II

En jafnvel þó viska hinna fornu bóka sé dauð, þá lifir áhuginn á heimi dagdraumanna (rêverie) enn. Í þessu litla kveri ætlum við að reyna að þýða allar heimildir okkar, hvort sem þær berast okkur úr fórum heimspekinganna eða skáldanna, yfir á frumgerðir dagdraumanna (rêverie primaria).

Allt kemur okkur við og allt tilheyrir okkur þegar við endurheimtum rætur einfaldleikans í draumum okkar – eða í skilaboðum frá draumheimum annarra.

Andspænis litlum loga tölum við heiminn á siðferðilegum forsendum. Jafnvel á einfaldri vökunótt verður kertisloginn fordæmi fyrir heiðskírt og brothætt líf. Vissulega mun hinn minnsti andblær rugla það, rétt eins og framandleg hugsun gerir við heimspekinginn sem hugleiðir. En þegar hið mikla ríki einsemdarinnar kemur í raun og veru, þegar stund heiðríkjunnar rennur upp í raun og veru, þá mun sami friður breiðast yfir hjarta dreymandans og hjarta logans, þá mun loginn varðveita form sitt og loga, eins og fjallviss hugsun, þráðbeint upp til móts við hin lóðréttu örlög sín.

Þannig gat kertaljósið verið næmur mælikvarði á rósemd sálarinnar á þeim tímum þegar menn létu sig dreyma hugsandi og hugsuðu dreymandi. Það var hárnæmur mælikvarði á þá ró sem legst yfir alla hina örsmáu hluti tilverunnar – mælikvarði þeirrar rósemdar sem veitir náð framvindunnar yfir þá viðveru sem fylgir flæði hins heiðskíra ríkis dagdraumanna (rêverie).

Viljið þið endurheimta rósemina? Andið ofurljúft andspænis litlum loga sem framkvæmir staðfastlega sína ljósvinnu.

III.

Þannig er hægt að umbreyta eldgamalli þekkingu í lifandi heim dagdraumanna (rêverie). Við ætlum hins vegar ekki að leita okkur heimilda í ævafornum og máðum handritum. Þvert á móti mundum við vilja endurfæra öllum þeim myndum sem hafa til að bera draumkennda vídd, þann geislabaug ónákvæmninnar sem gerir okkur kleift að hleypa myndinni inn í okkar eigin dagdraumaheim.

Það er einungir í gegnum dagdraumana sem við getum miðlað einstæðum myndum. Rökhugsunin (l’intelligenza) verður ráðþrota þegar kemur að því að sundurgreina rêverie fávíss manns. Einnungis örfáum síðum af þessari stuttu ritgerð verður varið til þess að kynna til sögunnar texta þar sem gamalkunnar myndir sýna sig með þeim hætti að þær virðast vilja segja okkur leyndardóma heimsins. Hversu létt verk er það ekki fyrir draumamann alheimsins að hverfa frá sínum litla loga að hinum stóru plánetum himinsins! Þegar við verðum sett í þessar aðstæður í gegnum lesturinn, þessa uppmögnum stærðanna, þá getum við ekki annað en glaðst. En við getum ekki lengur sett hrifningu okkar inn í kerfi. Af öllum rannsóknum okkar munum við ekki halda eftir nema örlitlum myndbrotum.

Þegar tiltekin mynd öðlast kosmísk gildi, þá jafngildir hún svimandi hugsun.

Slík mynd-hugsun, slík hugsun-mynd, hefur enga þörf fyrir skýringu og samhengi. Logi sem hugleiddur er af sjáanda er draugakenndur veruleiki sem kallar fram yfirlýsingu orðsins. Hér á eftir munum við bjóða fram margvísleg dæmi um þessar hugsanir-myndir, sem sýna sig í leiftrandi orðum. Oft gerist það að þessar myndir-hugsanir-orðasambönd lita skyndilega texta sem virðist fljóta lygnt áfram. Joubert, hinn skynsami Joubert, skrifar: „Loginn er rakur eldur“[1] Við munum í framhaldinu bjóða upp á mörg tilbrigði við þetta þema: samsemdin á milli logans og læksins. Í þessum inngangskafla látum við nægja að benda á hana til þess að undirstrika frá upphafi þann dogmatisma sem einkennir það sem við köllum rêverie og verður fyrst leiftrandi þegar hann vekur bælda þekkingu til lífsins. Það nægir ein þversögn til þess að snúa upp á náttúruna og frelsa dreymandann undan lágkúru palladómanna um hversdagslega hluti.

Því er það að lesandi Pensées eftir Joubert nýtur sín, einnig hann, við að nota ímyndunaraflið. Hann sér þennan raka loga, þennan logandi vökva, sem rennur upp á við, upp til himna eins og lóðréttur lækur.

Hér þurfum við að skjóta að athugasemd sem heyrir eingöngu undir heimspeki hins bókmenntalega ímyndunarafls. Mynd-hugsun-orð á borð við þessi orð Jouberts má kalla tjáningarfullt örlæti. Orðin í henni yfirstíga hugsunina. Og það rêverie sem talar er með sínum hætti yfirstigið af því rêverie sem skrifar. Þótt varla leyfist að segja það, þá er það svo að þetta rêverie „hins raka loga“ skrifar sig sjálft. Loginn hefur freistað rithöfundarins. Joubert hefur ekki staðist þessa freistingu. Við verðum að vonast til að skynsamt fólk og sanngjarnt fyrirgefi þeim sem ljá eyra við demónum blekbyttunnar.

Ef formúla Jouberts væri hugsun, þá væri hún ekki annað en of einföld þversögn. Ef hún væri mynd þá væri hún óljós og hverful. En þar sem við finnum hana í bók mikils siðapostula, þá opnar þessi formúla fyrir okkur heim hins alvarlega dagdraums. Sá tónn sem hér er sleginn með samslætti ímyndunar og sannleika gefur okkur einföldum lesendum heimild til þess að dreyma í alvöru, rétt eins og andi okkar starfaði í fullkominni heiðríkju innan draumaheims (rêverie) af þessari gerð. Í þeim dagdraumaheimi alvörunnar sem Joubert leiðir okkur inn í er eitt fyrirbæri heimsins tjáð og þar með höndlað. Það er tjáð í handanveru síns eigin veruleika. Það hefur skipti á eigin veruleika og mannlegum veruleika.

Ef við endurgerum fyrir sjálfum okkur mynd af klefa heimspekingsins sem hugleiðir, þá sjáum við kertið á borði hans ásamt stundaglasinu, tvær verur sem vísa báðar til mannlegs tíma, en svo ólíkar í stíl sínum. Loginn er stundaglas sem rennur upp á við. Hann er léttari en sandurinn sem rennur niður. Loginn myndar eigið form, rétt eins og tíminn sjálfur hefði stöðugt eitthvað fyrir stafni.

Í heiðríkri hugleiðslu verða loginn og stundaglasið tjáning á samsemd (comunione) hins létta tíma og hins þunga tíma. Í mínum dagdraumaheimi tjá þau samsemd tíma kvensálarinnar (anima) og karlsálarinnar (animus). Mér yrði það ljúft að láta hugann reika um tímann, þá verðandi sem rennur og þá verðandi sem flýr, ef ég gæti sameinað í ímynduðum klefa mínum kertið og stundaglasið.

En heimspekingurinn sem ég sé fyrir mér metur meira lærdóminn af loganum sem lyftist en lærdóminn af sandinum sem sekkur. Loginn kallar þann sem vakir til þess að lyfta augum sínum frá örkinni, yfirgefa tíma skyldunnar, tíma lestursins, tíma umhugsunarinnar. Í loganum er tíminn þátttakandi í vökunni.

Já, sá sem vakir andspænis loga sínum gerir hlé á lestrinum. Hugsar um lífið. Hugsar um dauðann. Loginn er viðkvæmur og flöktandi. Þetta ljós, sem andblærinn slekkur og neistinn kveikir. Loginn er auðveld fæðing og auðveldur dauði. Líf og dauði standa hér saman, hlið við hlið. Líf og dauði eru í mynd sinni fullkomnar andstæður. Hugsanaleikir heimspekinganna sem ástunda þrætulist sína um veruna og tómið í tóntegund hinnar hreinu rökfræði, taka á sig átakanlega áþreifanlega mynd andspænis ljósi sem fæðist og deyr.

En þegar menn dreymir enn dýpra, þá glatast þetta ljómandi hugsunarjafnvægi um líf og dauða. Hvert verður bergmál þessa orðs í hjarta dreymandans um kertaljósið: slökkvist! Án alls vafa munu orðin yfirgefa uppruna sinn og fara að lifa framandlegu lífi, lífi sem tekið er að láni hjá tilviljunum hreinna hliðstæðna. Hvert er hið mikla inntak hugtaksins slökkvist? Lífið eða kertið? Myndlíkingasagnirnar geta hrært upp í ólíkustu myndum sínum. Sögnin slökkvist getur látið hvað sem er deyja, hvort sem það er hávaði eða hjarta, ást eða ofsabræði.

En sá sem kallar eftir hinni sönnu merkingu, hinni upprunalegu merkingu, verður að kalla fram aftur dauða kertaljóssins.. Goðsögufræðingarnir hafa kennt okkur að lesa drama ljóssins í sjónarspilum himinsins. En í klefa dreymandans verða hversdagslegir hlutir goðsögur um heiminn. Kertaloginn sem slokknar er sól sem deyr. Kertaloginn deyr með mjúklegri hætti en jafnvel stjarnan á himninum. Kveikurinn bognar, kveikurinn sortnar. Loginn hefur tekið sitt ópíum úr skugganum sem umlykur hann. Loginn deyr vel; hann deyr með því að lognast út af.

Sérhver dreymandi kertisloga, sérhver dreymandi lítilla loga, þekkir þetta vel. Allt er dramatískt í lífi hlutanna og lífi alheimsins. Menn dreymir tvisvar þegar menn dreymir í félagsskap kertisins. Hugleiðslan andspænis kertinu verður samkvæmt orðum Paracelsusar upphafning heimanna tveggja, exaltatio utriusque mundi.[2]

Við sem erum einfaldir heimspekingar hinnar bókmenntalegu tjáningar munum í framhaldinu einungis gefa dæmi um þessa tvöföldu upphafningu eins og þau birtast hjá skáldunum. Að ætla sér að hjálpa þessum draumum, þessum misvísandi draumum, með hugsunum, vönduðum hugsunum, hugsunum annarra, til þess er tíminn þegar, eins og við sögðum í upphafi, útrunninn.

En meðal annarra orða, hver hefur nokkurn tíman kunnað að búa til skáldskap með hugsuninni?

IV.

Til þess að réttlæta þá fyrirætlun okkar að takmarka okkur við þær heimildir sem geta enn teymt okkur inn á svæði hinna alvarlegu dagdrauma er nálgast drauma skáldsins, munum við taka eitt dæmi af mörgum mögulegum um heilt samsafn mynda og hugmynda sem sótt er í gamla bók sem ekki getur gert tilkall til hluttekningar okkar eða þátttöku, hvorki vegna hugmynda sinna né mynda. Teknar úr sínu sögulega samhengi geta þessar síður ekki einu sinni talist nein afrek hugmyndaflugsins. Þessar blaðsíður geta heldur ekki talist hafa með skipulagningu þekkingar að gera. Við verðum að líta á þær eingöngu sem samsafn hugsana sem einkennast af oflæti og einfeldningslegum myndum. Heimild okkar verður því andstæða þeirrar upphafningar myndanna sem við elskum að upplifa. Það verður ofgnótt ímyndunaraflsins.

Eftir að hafa gert athugasemdir við þessa krefjandi heimild munum við hverfa aftur til fíngerðari mynda, sem eru ekki eins gróflega njörvaðar saman í eitt kerfi. Þar munum við finna hvatningu sem við getum fylgt eftir á okkar eigin persónulegu forsendum og upplifað gleðina sem fylgir ímyndunaraflinu.

V.

Í umfjöllun sinni um Zohar[3] í bókinni Traité du feu et du sel skrifaði Blaise de Vigenère:

Til er tvöfaldur eldur, þar sem annar er sterkari og gleypir hinn í sig. Sá sem vill kynnast honum ætti að hugleiða þann eld sem kviknar og rís í kveiktu eldstæði eða venjulegum blyslampa, því eldurinn rís ekki nema hann sé bundin rotgjörnu efni og hann sameinast ekki andrúmsloftinu. En í þessum eldi sem rís eru tveir logar: einn er hvítur og lýsir og skín með bláum rótum sínum efst uppi; hinn er rauður og er samrunnin eldiviðnum og kveiknum sem hann brennir. Hinn hvíti stefnir beint upp, en hinn rauði er lokaður undir og losnar ekki frá efninu um leið og hann nærir hinn logann á því sem fær hann til þess að lýsa og ljóma.[4]

Hér er upphaf rökræðunnar um hið virka og óvirka, um þolandann og gerandann, um hinn brennda og þann sem brennir – um díalektík hinnar þáliðnu tíðar (patecipi passati) og núliðnu tíðar (partecipi presenti) sem hefur verið eftirlæti heimspekinga allra tíma.

En í augum „hugsuða“ eldsins, eins og við getum sagt um Vigenère, verða staðreyndirnar að opna gildishlaðna sjóndeildarhringa. Gildið sem hér þarf að höndla er ljósið. Þannig verður ljósið æðsti gildismælikvarði eldsins. Það verður að drottnandi gæðum þar sem það gefur staðreyndum merkingu og gildi sem annars voru merkingarlausar. Upplýsingin er raunverulegur ávinningur. Vigenère lætur okkur raunverulega finna hvílíka þraut hinn efnislegi eldur verður að ganga í gegnum til þess að breyta sér í hvítan loga, til þess að ávinna sér þetta ríkjandi gildi sem er fólgið í hvítunni. Þessi hvíti logi „er ávalt sá sami án þess að breytast eða flökta eins og hinn loginn gerir, sem stundum sortnar, stundum verður rauður, gulur, bláleitur, fjólublár eða túrkislitaður.“

Guli loginn verður þannig andgildi hins hvíta loga. Kertisloginn er lokaður vígvöllur gildis og andgildis. Hvíti loginn verður að „útrýma og eyða“ þeim efnisþáttum sem næra hann. Fyrir höfund sem uppi var fyrir vísindasögulegan tíma gegnir loginn þannig jákvæðu hlutverki í hagkerfi heimsins. Hann er verkfæri til þess að smíða betri heim.

Þannig erum við reiðubúin að meðtaka hinn siðferðilega boðskap: hin siðferðilega vitund okkar verður að verða hvítur eldur „sem brennur þann sora sem hún hýsir“.

Og sá sem brennur vel logar hátt. Vitundin og loginn hafa hin sömu örlög hins lóðrétta. Hinn einfaldi logi kertisins dregur vel upp mynd þessara örlaga, hann sem „fer sjálfkrafa upp á við og hverfur til uppruna síns eftir að hafa framfylgt hlutverki sínu í neðra, án þess að umbreyta nokkru sinni ljóma sínum í annan lit en þann hvíta“.

Texti Vigenère er langur. Við erum búin að þjappa honum mjög mikið saman. Hann getur verið þreytandi aflestrar. Hann hlýtur að verða illþolanlegur þegar hann er lesinn sem hugmyndatexti er skipuleggur þekkingu. Sem texti úr heimi dagdraumanna kemur hann mér hins vegar fyrir sjónir sem rêverie er sprengir öll mörk, sem felur í sér alla heimsins reynslu, hvort sem hún á rætur sínar í manninum eða heiminum. Um leið og fyrirbæri heimsins hafa öðlast svolítinn áþreifanleika og einingu verða þau að mannlegum sannleika.

Siðferðisboðskapurinn sem lokar texta Vigenère hlýtur að flæða til baka inn í sérhvern kima hans. Þessi siðferðiboðskapur hvíldi með leynd í þeim hagsmunum, sem dreymandinn hafði gagnvart kerti sínu. Hann skoðaði það út frá siðferðilegum sjónarhóli. Fyrir honum opnaði það siðferðilegar dyr að heiminum, aðgengi að siðferði heimsins.

Hefði hann kannski vogað sér að skrifa um kertaljósið ef hann hefði einungis talið það vera brennda tólg? Dreymandinn hafði á borði sínu það sem við getum með fullum rétti kallað fyrirbæri – dæmi. Eitt efni, það auvirðilegra og lægra setta, framleiðir ljós. Það hreinsar sig um leið með verknaði sínum þar sem það gefur ljósið. Hvílíkt lýsandi dæmi um virka hreinsun! Og það eru sjálf óhreinindin, sem framleiða hið hreina ljós með því að tortíma sjálfum sér. Þannig verður hið illa næring hins góða. Í loganum finnur heimspekingurinn fyrirbæri – fordæmi, kosmískt fyrirbæri og dæmi um manngervingu. Með því að fylgja þessu fyrirbæri-fordæmi getum við „brennt sora okkar“.

Hinn hreinsaði eldur, hreinsunareldurinn, upptendrar dreymandann tvisvar, bæði í augunum og sálinni. Hér eru myndlíkingarnar raunveruleiki og þegar raunveruleikinn hefur verið meðtekinn af hugsuninni verður hann myndlíking um mannlega göfgi. Hana hugleiðum við með því að beita myndlíkingu á veruleikann. Gildi texta Vigenère væri annað ef hann væri greindur á forsendum táknhyggjunnar. Myndin sýnir okkur, táknmálið staðfestir. 

Fyrirbærið sem hefur verið hugleitt á trúverðugan hátt er ekki eins og táknið, hlaðið sögulegum forsendum. Táknið er sambræðsla hefða af margvíslegum og ólíkum uppruna. Það er ekki hægt að vekja upp allar þessar upprunasögur í hugleiðslunni. Líðandi stund verður fortíð menningarinnar yfirsterkari. Sú staðreynd að Vigenère hafi lesið Zoharinn kom ekki í veg fyrir það að hann endurheimti í fullkominni frumgerð sinni þann dagdraumaheim (rêverie) sem hin gamla bók þóttist setja fram sem þekkingu. Um leið og lesturinn kallar fram draum hætta menn að lesa. Ef kertið upplýsir þá gömlu bók sem talar um logann, þá nær tvíræðni hugsananna og dagdraumanna sínum ystu mögulegu mörkum.

Engin fleiri tákn, ekki meira af tvöföldu tungumáli sem þýðir efnið yfir í anda eða öfugt. Með Vigenère göngum við inn í þá sterku einingu dagdraumanna sem sameinar manninn og heim hans, í þá sterku einingu dagdraumanna (rêverie) sem ekki verður rofin með þrætubókardíalektík hlutveru og hugveru. Í slíku heimi dagdraumanna verður heimurinn allur holdgerving örlaga mannsins í öllum sínum smáhlutum. Og í innileik leyndardóms síns vill heimurinn ekkert frekar en örlög hreingerningarinnar. Heimurinn er frjókorn betri heims, rétt eins og hinn þungi og guli logi er frjókorn hins leikandi hvíta loga. Í krafti hvítleika síns og í krafti viðleitninnar til þess að öðlast hvítleikann nær loginn sínum náttúrlega áfangastað og fylgir þannig ekki bara reglum hinnar aristótelísku heimspeki. Hér hafa verið höndluð gildi sem standa öllum öðrum gildum ofar er hvíla á hinum efnislegu gildum. Afturhvarf til hinna náttúrlegu heimkynna felur vissulega í sér skipulega tiltekt, endurreisn á skipulagningu heimsins. En hvað varðar hvíta ljósið, þá er það siðferðileg regla sem drottnar yfir hinni efnislegu reglu. Sá náttúrlegi staður sem loginn leitar að er siðfræðilegt svið.

Það er þess vegna sem loginn og myndir logans sýna okkur hvort tveggja í senn gildi mannsins og gildi heimsins. Þau sameina siðfræði „smáheimsins“ og hina stórbrotnu siðfræði alheimsins.

Dulhyggjumennirnir sem fjölluðu um örlög og tilgang eldfjallsins hafa ekki sagt annað en þetta í aldanna rás, þegar þeir hafa staðhæft að það sé vegna góðkynja virkni eldfjalla jarðarinnar „sem hún hreinsar sig af sora sínum“. Michelet hélt þessu enn fram á síðustu öld. Sá sem hugsar svo stórt getur vel látið sig dreyma hið smáa og trúað því að litla kertaljósið hans þjóni því hlutverki að hreinsa heiminn.

VI.

Ef við beinum rannsókn okkar að vandamálum helgisiðanna, þá byggjum við á eins konar æðri táknfræði, táknfræði sem í sinni upprunalegu mynd var reist á siðferðilegum og trúarlegum gildum. Þar lendum við augljóslega ekki í neinum vandkvæðum með að finna enn dramatískari táknfræðilegar vísanir fyrir logann og eldana en þær sem verða til með fullri einlægni í dagdraumaheimi þess sem dreymir kertaljós.

Við teljum hins vegar að það sé áhugavert að beina ljósinu fyrst að almennari og einfaldari fyrirbærum frekar en þeim dagdraumaheimum sem kalla á langsóttari og fjarlægari hliðstæður. Hliðstæða er í sjálfri sér upphafstákn, tákn sem ekki hefur tekið á sínar herðar fulla ábyrgð. Misvægið á milli hins skynjaða og hins ímyndaða fer samstundis út í öfgar. Loginn verður ekki lengur viðfang skynjunarinnar. Það breytist í heimspekilegt viðfang. Þá verður allt mögulegt.

Heimspekingurinn getur sallarólegur ímyndað sér andspænis kertaljósi sínu að hann sé vitni heimsins sem brennur. Loginn er fyrir honum heimur sem leitar á vit framtíðarinnar.

Dreymandinn sér hins vegar í loganum sína eigin veru og sína eigin framtíð. Í loganum fer rýmið að bylgjast og tíminn æsir sig. Allt skelfur þegar ljósið skelfur. Er verðandi eldsins ekki hið dramatískasta og það mest lifandi sem við getum fundið í allri verðandi.

Heimurinn líður með hraði ef við ímyndum okkur hann í eldinum. Þannig getur heimspekingurinn látið sig dreyma allt – ofbeldi og frið – þegar hann dreymir heiminn andspænis kertinu.

____________________________________________________

Forsíðumynd: Iðrun Maríu Magdalenu eftir Georges de la Tour frá 1630-35

 

[1] J. Joubert, Pensées, París 8. útg. 1862, bls. 163. Fyrstu vatnsefnislogarnir voru stundum kallaðir „eldsuppsprettur“ sbr. Edouard Foucaud, Les Artisans illustres, Paris, 1841, bls. 263.

[2] Tilvitnun frá C.Gustav Jung, ParacelsiaGesammelte Werke, Freiburg, Olten, 1978)

[3] Zohar er dulspekirit um kabbalafræði, trúlega ritað á 13. öld á Spáni á miðalda-hebresku og aramísku. Kabbalafræðin eru dulspekileg útlegging á Torah, fimm bókum Móse úr Gamla Testamentinu, sem eru grundvöllur trúarbragða gyðinga.

[4] Blaise de Vigenère, Trait du feu et du sel (Ritgerð um eld og salt), París 1628, bls 108

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

%d bloggers like this: