Texti um list Kees Vissers í tilefni sýningar hans í Arion-banka 2011
Sjónin er ekki tiltekin aðferð hugsunar, eða tiltekin viðvera í sjálfri sér:
hún er tæki sem mér er gefið til að vera fjarvistum frá sjálfum mér,
til að upplifa innan frá ákveðinn klofning verunnar,
sem leiðir mig að lokum aftur til baka inn í sjálfið.
Maurice Merleau-Ponty
Hollenski listamaðurinn Kees Visser varð virkur þátttakandi í íslenskum listheimi á áttunda áratug síðustu aldar, fyrst í gegnum tengsl sín við íslenska listamenn sem stunduðu nám í Hollandi á þeim tíma, og síðan eftir að hann fluttist hingað til lands 1976. Hann varð einn af stofnendum Nýlistasafnsins 1978 og tók þátt í mörgum samsýningum hér á landi allt þar til hann fluttist aftur til heimalands síns 1992. Hann hefur verið reglulegur gestur hér á landi alla tíð síðan, og tengsl hans við íslenskt myndlistarlíf hafa aldrei rofnað. Eftirminnilegasta sýning hans hér á landi frá þessum tíma er einkasýningin sem hann hélt í Nýlistasafninu árið sem hann flutti af landi brott, en þar kom fram kerfisbundin rannsókn hans á grundvallarþáttum allrar myndlistar, litnum og forminu. Sú rannsókn birtist meðal annars í svokölluðum rimlaverkum þar sem spurningar um tengsl litar og forms verða áleitnar sem og virkni þeirra á sjónskyn okkar og virkni sjónskyns og snertiskyns handan allrar merkingar orðanna. Eftir heimkomuna til Hollands hefur listferill Kees Vissers náð nýjum hæðum og rannsókn hans á tungumáli forms og lita og tengslum þeirra við skynjunina dýpkað svo að hann verður nú að teljast í hópi fremstu listamanna á sínu sviði.
Þegar horft er yfir feril Kees Visser verður ekki hjá því komist að horfa til þess skyldleika sem list hans hefur við rannsóknir heimspekingsins Ludwig Wittgensteins á sambandi litaskyns okkar við merkingarfræði orðanna og hins talaða tungumáls. Athugasemdir Ludwig Wittgensteins um litina snúast allar um samband rökhugsunar og skynjunar þar sem skynjun litarins og nafn hans verða um leið lykillinn að heimspekilegum vandamálum um samband tungumálsins og veruleikans almennt. Í stuttu máli er niðurstaða Wittgensteins sú, að merkingafræðilegar yrðingar lúti öðrum lögmálum en skynreynslan og að orðin sem við notum, t.d. um litina, sé samkomulagsatriði, en eigi sér enga beina stoð í skynreynslu okkar: gulur merkir gulan lit ef meirihluti þess málsamfélags sem notar orðið „gulur“ sameinast um þessa jafngildingu, ekki vegna þess að um raunverulega jafngildingu sé að ræða. Rökhugsun tungumálsins endar í formlegri klifun þegar setja á beint samband á milli orðsins og fyrirbærisins sem því er ætlað að merkja. Endanlega snýst tungumálið um sig sjálft og utan þess ríkir þögnin. Wittgenstein lendir stöðugt í þessu þrátefli á milli orðanna, skynjunarinnar og hlutanna og nær í raun aldrei lengra en að bregða ljósi á ráðgátuna, sem í þessu tilfelli verður að orðaleiknum um litina þar sem forsendurnar eru samkomulagsatrið. Ein af niðurstöðum hans er hins vegar sú, að þrátt fyrir allt sé það „reynslan sem gefi orðunum merkingu“[1]. Sú niðurstaða, að t.d. reynslan af gulum lit gefi orðinu gulur merkingu sína, skilur þó eftir enn stærri spurningu: hvers konar reynsla gefur orðinu „reynsla“ merkingu?
Þessar spurningar Wittgensteins koma óhjákvæmilega upp í hugann þegar við sjáum verk Kees Wissers, en við nánari athugun kemur í ljós að sjónlistamaðurinn nálgast þessar spurningar út frá allt annari reynslu og með allt öðrum aðferðum en sá listamaður orðsins, sem Wittgenstein óneitanlega var. Til að einfalda málið getum við rakið rannsóknir Vissers á sambandi lita, forms og skynjunar til svokallaðra rimlaverka hans frá sýningunni 1992, þar sem eðlislæg nálgun sjónlistamannsins nær að útvíkka og dýpka hugsun merkingafræðanna og hinnar heimspekilegu orðræðu með því að tengja litina við form þeirra og þá skynjun sem ekki byggir á orðum, heldur líkamlegri nálgun skynjandans og hins skynjaða. Eftir heimkomuna til Hollands hafa þessar rannsóknir Vissers dýpkað og skilað æ markvissari árangri um leið og sú þögn sem Wittgenstein skynjaði utan tungumálsins sem heim hins ósegjanlega hrópar nú til okkar í fjölskrúðugum röðum kerfisbundinna verka Vissers, sem leiða okkur langt út fyrir hina merkingafræðilegu ráðgátu orðanna að þeirri ráðgátu sjálfrar sjónarinnar og sýnileikans sem á rætur sínar í líkama okkar og í þeirri veru sem aldrei verður aðgreind frá efnislegu samhengi sínu: ef orðin duga ekki til annars en að lýsa tungumálinu, þá standa litirnir og formin í beinu og milliliðalausu sambandi við skynjandann í þeirri þversögn sem lætur það sem er utan seilingar handanna og orðanna verða til inni í okkur sjálfum sem nýr sýnileiki er býr yfir sinni innri rökræðu og sínum töfrum, handan við alla setningafræði og merkingarfræði orðanna.
Myndaraðir Kees Visser hafa allar einfalt yfirbragð og virðast við fyrstu sýn enduróma þá klifun orðanna sem margir fylgjendur Wittgensteins endurómuðu í konseptlist og minimalisma síðustu áratuga 20. aldarinnar. En sá boðskapur byggði á því að rétt eins og orðið merkir ekki lengur annað en sjálft sig, þá eigi hið sama að gilda um litinn og formið. En um leið og við förum að grandskoða verk Vissers betur, þessar raðir af að því er virðist einlitum ferningum eða línum, þá kemur upp óþægilegt áreiti : ferningarnir eru ekki „réttir“ og litirnir reynast margslungnari og dýpri en virðist við fyrstu sýn, þeir hafa hrjúft yfirborð hins hreina litardufts en taka breytingum út með jöðrunum og inni í sjálfum fletinum eftir því hvernig ljósið fellur á þá og hvar við stöndum. Skyndilega erum við leidd inn í heim lita og forma sem vísa út fyrir tungumál orðanna og inn í líkama okkar sjálfra, þar sem ekki bara augun, heldur allur líkaminn meðtekur skilaboðin í mynd nýs sýnileika sem býr handan orðanna. Við upplifum hrynjandi og hljómfall lita og forma, þar sem leikið er á hárfín tilbrigði er kalla á dýpstu athygli okkar. Visser er óhræddur að veita okkur innsýn í verkferla sína og kerfishugsun, þar sem uppdrættir liggja fyrir eins og nótnablöð af tónverkum með línum og kvörðum er standa eins og nótnastrengir fyrir gildi lita og forma. Og við uppgötvum að á bak við allan einfaldleikann í framsetningunni býr margslungin fræðileg kerfishugsun sem síðan framkallar þessi skynáreiti sem smám saman verða að uppljómun: liturinn er ekki bara litur og formið er ekki bara form og samhengi þeirra reynist niðurstaða flókinna útreikninga sem framkalla samhljóm í upplifun okkar, sem nærtækast verður að líkja við raðtónlist, þar sem tónum er raðað á band eftir tilteknum reglum.
Það er eitt höfuðeinkenni hins talaða tungumáls að nota orðin til að greina heiminn í sundur til þess að ná valdi á honum. Slík aðgreining er oft ómeðvituð og innbyggð í tungumálið. Þannig er okkur til dæmis tamt að segja „ég trúi ekki mínum eigin augum!“. Með þessu orðalagi höfum við greint augun frá sjálfum okkur og hlutgert líkamann sem aðskilinn frá sjálfinu og vitundinni eins og hún sé tær og óefniskennd hugsun. Það ætti hins vegar að vera hverjum manni ljóst að okkur duga ekki augun ein til að sjá. Í raun sjáum við alls ekki með augunum, heldur eru augun hluti af því flókna og ógagnsæja neti sem myndar líkama okkar og veru í heild sinni. Það verður svo til að auka þennan misskilning, að sú sýn sem framkallast í líkama okkar þegar hann opnar augu sín gagnvart hinu skynjaða er oftar en ekki aðgreind með tungumálinu frá „hlutnum í sjálfum sér“ eins og um tvo aðskilda hluti væri að ræða. En eins og Maurice Merleau-Ponty hefur bent á, þá er skynjun okkar almennt -og sjónskynið sérstaklega -fólgin í víxlverkun, samsemd og samruna hins skynjaða og þess sem skynjar. Þar að auki hefur Merleau-Ponty bent á þá vafasömu hugsun að hlutirnir hafi tilveru „í sjálfum sér“ eins og þeim væri gefin sjálfsvitund eða sjálf[2].
Kees Visser að störfum: málaralistin er líkamleg iðja
Í stað þess að rannsaka samband litaskynsins og tungumálsins eins og Wittgenstein gerði, hefur Ponty rannsakað samband litarins og líkamans: þær staðreyndir að litirnir hafa áhrif á hreyfiáform líkamans þannig að t.d. gulir og rauðir litir verka úthverfir og örvandi en grænir og bláir litir verka innhverfir og róandi. Þessar einföldu staðreyndir segja þó ekki alla söguna, því við sjáum líka að litirnir í verkum Vissers breytast eftir því hvernig við hreyfum okkur gagnvart þeim: fjarlægð okkar og sjónarhorn hafa bein áhrif á skynjun okkar. Sama á við um hin örfínu tilbrigði í formi, við skynjum þau eftir hreyfingu okkar sjálfra, og endanlega byggir skynjun okkar á þessum verkum ekki á því að við göngum út frá talnareikningi þeirrar flóknu kerfishugsunar, sem listamaðurinn hefur lagt til grundvallar verki sínu, og mótað þannig einhvern fyrirfram hugsaðan skilning á verkinu, heldur er virknin þveröfug: litatilbrigðin og formtilbrigðin í heildarsamhengi sínu skapa bergmál í líkama okkar og þetta bergmál verður að nýrri sjónrænni reynslu sem er ekki grundvölluð á útreikningi heldur þvert á móti á beinni skynjun án orða og rökgreiningar. Með sama hætti getum við skilið verkið frá sjónarhóli listamannsins: þau ströngu kerfisbundnu mörk sem hann setur verkunum verða ekki til að draga úr tjáningunni, heldur þvert á móti: tjáningin birtist okkur að vísu ekki í hefðbundnum expressíónískum pensilstrokum og formsköpun, heldur þvert á móti í þeirri spennu sem reglan skapar tjáningunni: sérhver pensilstroka í þessum verkum þurrkar út þá fyrri í marglaga „setlögum“ litarins sem geymir upphlaðin átök málarans við að halda sig innan hinna ströngu reglna sem hann hefur sett sér frá upphafi. Sama gildir um formtilbrigðin sem ýta við okkur við nánari athugun þannig að sú spenna sem form litanna fela í sér endurómar í okkur sjálfum með sambærilegum hætti og um tónlist væri að ræða.
Svo óhlutbundin sem verk Kees Vissers hafa verið til þessa kemur á óvart að á allra síðustu árum hefur hann samfara hinum geometrísku verkum sínum sýnt blómamyndir að því er virðist af allra einföldustu gerð: stakt blóm opnar sig á miðju myndflatarins með misjafnlega gráleitum bakgrunni. Í fyrstu virðast þetta vera ljósmyndir, en við nánari athugun sjáum við að ekki er allt með felldu: dýpt og skerpa myndarinnar kemur ekki heim og saman við þá fjarlægð sem bæði filman og stafræna formið hafa á viðfang sitt: það er einhver óþægileg efnisleg nálægð í þessum litmyndum sem nánast gefa mynd blómsins efnislega nærveru á köflum. Við nánari athugun komumst við svo að því að myndirnar eru ekki hefðbundnar ljósmyndir, heldur unnar upp úr sérstakri rafrænni gæðaskönnun, sem síðan er yfirfærð á hefðbundið stafrænt form og prentuð með tölvuprenti. Við sjáum að þrátt fyrir allar deilur um „abstrakt“ og „fígúratífa“ myndlist, þá er Visser hér að fjalla um sama vandamálið og í hinum óhlutbundnu myndum sínum, það sem Merleau-Ponty kallar ráðgátu sjónskynsins:
„Þetta sýnir okkur að spurningin um hlutbundna eða óhlutbundna list er illa hugsuð: það er satt og engin þversögn að ekkert vínber hefur nokkurn tíman verið það sem er í málverkinu, einnig í hinu hlutbundna , og jafnframt er það satt og rétt að ekkert málverk, hversu óhlutbundið sem það er, getur nokkurn tíma undanskilið sig Verunni, og að vínber Caravaggios er vínberið sjálft. Þessar fullyrðingar fela ekki í sér mótsögn. Sá forgangur sem við gefum því sem er fram yfir það sem er séð og sýnt, því sem er séð og sýnt fram yfir það sem er, er sjónin sjálf.[3]“
Myndlist Kees Visser fjallar um ráðgátur sjónarinnar á hlutbundinn hátt.
Kees Visser: Án titils, 2011 (skannað tölvuprent)
Caravaggio: Karfa með ávöxtum, olía á léreft, 1599
[1] L.Wittgenstein, Remarks on colour, 1977, hér stuðst við ítalska þýðingu M.Trinchero, Osservazioni sui colori, 1981, III, 317, bls. 103
[2] sjá t.d.: Maurice Merleau –Ponty, Phenomenologie de la perception, 1945, hér stuðst við ítalska þýðingu A.Bonomi, Fenomenologia della percezione, Milano 2003, bls. 292.
[3] Maurice Merleau-Ponty, L‘Œil et l‘Espirit, hér stuðst við ítalska þýðingu A.Sordini, L‘occhio e lo spirito, 1964, bls. 60